Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mikil tækifæri í opnun hótels og veitingastaðar með eldgos í bakgarðinum
Birgir Rafn Reynisson og Herborg Svana Hjelm inni á svítu hótelsins. Þarna hafa listaverk úr Festi fengið að njóta sín. VF-myndir: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 23. maí 2021 kl. 08:12

Mikil tækifæri í opnun hótels og veitingastaðar með eldgos í bakgarðinum

Hotel Volcano opnar í gamla Festi í Grindavík

Herborg Svana Hjelm og Birgir Rafn Reynisson hafa tekið við rekstri Geo Hótel í Grindavík. Hótelið skiptir um nafn og heitir í dag Hotel Volcano. Þá er að opna nýr veitingastaður á hótelinu sem hefur fengið nafnið Festi bistro.

Fjárfestar keyptu nýverið fasteignina sem hýsir hótelið en þau Herborg og Birgir keyptu reksturinn. Þau eru viðskiptafélagar en þau reka einnig veitingastaðina Fjárhúsið á Granda og Hlemmi í Reykjavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nýir eigendur hótelsins sjá mikil tækifæri í hótelrekstrinum í Grindavík um þessar mundir þar sem eldgos mallar í bakgarðinum. Þau tóku við rekstrinum fyrir rúmlega viku og bókanir hafa farið vel af stað og fram úr björtustu vonum. „Bókanir í júní eru lygilegar. Við trúðum því ekki að þetta yrði svona mikið,“ segir Herborg. Þegar þau tóku við lyklunum af hótelinu höfðu þau fjóra sólarhringa til að standsetja hótelið áður en fyrstu gestir komu en hótelið hefur staðið autt í vel á annað ár.

Birgir er Grindvíkingur og þekkir vel til Festi, félagsheimilisins sem áður var starfrækt í húsinu. Útlit hússins fékk að halda sér þegar Festi var breytt í hótel og Birgir segir að það sé góður andi í húsinu. Herbergi eru í báðum endum hússins, samtals 36 herbergi. Þá er miðrýmið, þar sem áður var dansað á laugardögum, veitingarými og móttaka.

Fyrstu gestirnir eru komnir og þeir koma nær allir frá Bandaríkjunum. Þá hljóma bókanirnar sem eru að berast flestar upp á gistingu í tvær til þrjár nætur, þannig að ferðamennirnir ætla sér að stoppa lengi við á Suðurnesjum. Eldgosið er reyndar að heilla gesti Hotel Volcano og þau vita um gesti sem höfðu jafnvel farið tvisvar að gosinu sama daginn og voru algjörlega heillaðir. Þá hefur Grindavík upp á allt að bjóða. Þar eru bæði Bláa lónið og eldgosið. Þá er stutt út á Reykjanes og í aðra afþreyingu á Suðurnesjum. „Við erum mjög bjartsýn á framhaldið miðað við hver staðan er í dag,“ segir Herborg og Birgir bætir við: „Þetta leggst vel í okkur og ég hef fulla trú á þessu verkefni“.

Festi mun ganga í endurnýjun lífdaga sem nafn á veitingastað hótelsins. Hann mun heita Festi bistro. „Þetta nafn á heima hérna,“ segir Birgir. Veitingastaðurinn verður opinn síðdegis milli kl. 17–21. Á staðnum verður í boði léttari matur. Þau hafa reynsluna úr Fjárhúsinu sem þau reka á tveimur stöðum í Reykjavík. Fólk er að fara oftar út að borða en er ekki að klæða sig upp fyrir stíft borðhald, það sé ekki þróunin í dag. „Við ætlum að vera með það sem virkar en við teljum okkur orðið þekkja það hvað virkar og hvað ekki,“ segir Herborg.

Birgir gerir ráð fyrir því að sjá um eldhúsið á Festi bistro. „Ætli ég verði svo ekki að fá Bibbann með mér,“ segir hann og hlær. Bibbinn, Bjarni Ólafsson, starfaði lengi með Birgi á veitingahúsi sem stóð við gamla Bláa lónið.

Í tengslum við Festi bistro stendur einnig til að byggja myndarlegan sólpall utan við hótelið þannig að hægt sé að sitja úti og njóta veitinga í góðu veðri. Hótelið er við ein fjölförnustu gatnamót Grindavíkur þar sem leiðin austur að gosstöðvunum liggur. Pallurinn verður vel sýnilegur þeim sem aka hjá og verður að sögn hótelhaldara vonandi til að draga fólk að hótelinu og veitingastaðnum. „Við viljum geta tekið á móti fólki með miðbæjarstemmningu,“ segir Birgir og Herborg bætir við að þau séu á besta stað í bænum til að gera eitthvað skemmtilegt.

Hotel Volcano mun skapa sex til átta störf þegar allt verður komið í gang. Hótelreksturinn sjálfur er þekkt stærð en þau vita ekki alveg hvað veitingastaðurinn mun kalla á mörg störf. Þar sé í dag gert ráð fyrir tveimur til þremur starfsmönnum en ef traffíkin verði meiri verði að bæta við fólki.