Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Miðvikudagur 26. janúar 2000 kl. 14:08

Martak í Grindavík tryggir sér sæti á erlendum mörkuðum

Ómar Ásgeirsson stofnaði fyrirtækið Martak árið 1995, sem er eina fyrirtækið sinnar tegundar á Íslandi. Starfsemin felst í að þjónusta rækjuverksmiðjur um allt land, þ.e. að sjá um viðhald og nýsmíði. Fyrirtækið er í örum vexti og nú hefur það teygt anga sína alla leið til Noregs og Kanada, þar sem það er þegar komið með sterka markaðshlutdeild. Nýsmíði og viðhald „Við gerum þjónustusamninga við fyrirtæki, hér heima og erlendis, og sjáum um að allt viðhald sem felst í að smíða nýja rækjuvalsa, skipta um gúmmí o.fl. Við smíðum einnig rækjupillunarvélar, aðrar rækjuvinnsluvélar og erum með umboð fyrir rækjublásara. Hönnuður þeirra er Vilhelm Þórarinsson frá Skagaströnd en hann kemur til starfa hjá okkur hér í Grindavík innan skamms. Ég stofnaði Martak á sínum tíma vegna þess að ég sá góða möguleika í að framleiða varahluti og vélar hér heima og skapa þar með störf og lækka verð á þessum hlutum töluvert“, segir Ómar. Erlendir markaðir opnast Hjá Martak í Grindavík vinna 8-10 starfsmenn að jafnaði og á Nýfundnalandi eru 2 starfsmenn, en þar er fyrirtækið komið með 50% markaðshlutdeild. „Við höfum selt um 20 nýjar pillunarvélar til Kanada og við erum fullkomlega samkeppnisfærir í verði við vélar frá Ameríku. Noregsmarkað höfum við aðeins selt inná, en ekki eins mikið og til Kanada. Við ætlum okkur að skoða þann markað betur og Grænlandsmarkað sömuleiðis“, segir Ómar. Miklar sveiflur á Íslandi Ómar segir sveiflur í rækjuvinnslu á Íslandi vera tíðar og því sé nauðsynlegt að leita á erlenda markaði þegar niðursveiflurnar verða hér. „Nú er t.d. uppsveifla á Kanada en það hefur verið niðursveifla á Ísland undanfarið. Með því að tryggja okkur á Kanadamarkaði tekst okkur að lifa af.“ Ómar segist þó ekki ætla að þenja reksturinn út þó vel gangi því hann telur betra að sigla hægt og rólega. Húsnæðið sem fyrirtækið er í í Grindavík er nánast sprungið utan af starfseminni og Ómar hyggst stækka við sig fljótlega. Fjölgun á starfsfólki er jafnvel inní dæminu. En borðar Ómar rækjur? „Já ég borða rækjur og finnst þær góðar.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024