Margir föndra fyrir jólin
Fullt að gera allan ársins hring í Skartsmiðjunni
Hjónin Katrín Steingrímsdóttir og Haraldur Gunnarsson eiga einu verslunina við Hafnargötu sem býður upp á ýmsa föndurvöru, prjónavöru og skartgripi, svo eitthvað sé nefnt. Verslun þeirra Skartsmiðjan hefur verið rekin í Reykjanesbæ undanfarin átta ár. Þau finna snemma fyrir jólaverslun því viðskiptavinir þeirra búa yfirleitt til gjafirnar sjálfir en það þarf að gera tímanlega fyrir jól.
Föndurstund fjölskyldunnar
„Hér er alltaf fullt að gera allan ársins hring því það eru svo margir að skapa og búa eitthvað til. Þeir sem búa til eigin jólagjafir og jólakort byrja snemma að undirbúa jólin. Annars leggjum við mesta áherslu á að vera alltaf með mikið vöruúrval fyrir handverksfólk. Í desember eru sumar fjölskyldur með föndurdag þar sem allir koma saman og föndra saman. Við seljum föndurkassa sem fólk getur gripið með sér í svona föndurstund en þá er allt innihaldið í einum poka, allt sem þú þarft. Þetta eigum við bæði handa börnum og fullorðnum. Við erum með fullt af jólaútsaum en vinsældir hafa aukist í að sauma út. Meira að segja börnin sauma út en þá erum við með grófari útsaum handa þeim. Krakkarnir eru að læra að sauma út í skólanum en þetta er svo róandi fyrir þau og þjálfar fínhreyfingar þeirra. Svo erum við með fullt af garni, ótrúlega mikið úrval. Við eigum einnig allt sem þarf til skartgripagerðar og seljum þar að auki skartgripi sem eigandi verslunarinnar hefur búið til og skapað. Hér er svo mikið úrval að fólk verður bara að gera sér ferð hingað og skoða hjá okkur,“ segir Katrín.