Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Mamma Mía í Sandgerði: Innréttingar úr gamla Naustinu prýða staðinn
Fimmtudagur 27. september 2007 kl. 13:20

Mamma Mía í Sandgerði: Innréttingar úr gamla Naustinu prýða staðinn

Þeir sem sakna gamla veitingarstaðarins Naustsins ættu að kíkja á veitingastaðinn Mamma Mía í Sandgerði næst þegar þeir ætla að fá sér í svanginn.  Þar er nefnilega að finna hluta þeirra innréttinga sem prýddu Naustið allt frá opnun þess árið 1954.

Sögu Naustins lauk á síðasta ári þegar húsnæðinu var breytt og þar opnaður kínverskur veitingastaður. Þótti mörgum eftirsjá af Naustinu og innréttingunum er skópu þá umgjörð sem veitingstaðurinn fornfrægi var þekktur fyrir.

Ólafur V. Sigurðsson, eigandi Mamma Mía í Sandgerði, ákvað að grípa tækifærið þegar honum bauðst innréttingarnar úr Naustinu. Þar með var a.m.k. hluta af þessum menningarverðmætum bjargað frá því að lenda í glatkistunni. Ásamt nokkrum básum, sem hver og einn hétu sínu nafni, var barborðið af Símonarbar einnig tekið og nýtist nú sem afgreiðsluborð.


Veitingastaðurinn Mamma Mía flutti fyrir nokkrum mánuðum að Tjarnargötu 6 í húsnæði það sem áður hýsti verslunina Ölduna til margra ára. Þótti Ólafi því tækifærið upplagt að nýta þessar innréttingar fyrst þær stóðu til boða. Ólafur rekur staðinn ásamt eiginkonu sinni Elvu Dögg Sverrisdóttur. Á Mamma mía er sem fyrr boðið upp á fjölbreyttan pítsumatseðil. Hefur staðurinn m.a. notið mikilla vinsælda fyrir barnaafmæli. Þá er boðið upp á heitan heimilismat í hádeginu, boltann í beinni á risaskjá og sitthvað fleira.


Básarnir úr Naustinu hétu hver sínu nafni og þeim hefur verið haldið. Afgreiðsluborðið var áður barborð Símonarbars í Naustinu. VF-myndir: elg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024