Lögfræðistofa Suðurnesja opnar skrifstofu í Ásbrú
Lögfræðistofa Suðurnesja hefur nú opnað útibú frá skrifstofu sinni í Ásbrú, Reykjanesbæ, á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Stofan er þannig sú fyrsta til þess að hasla sér völl – á vellinum. Skrifstofa Lögfræðistofu Suðurnesja er að Skógarbraut 946.
Lögfræðistofa Suðurnesja hefur veitt stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum á Ásbrúarsvæðinu þjónustu frá því að svæðið var fært til borgaralegra nota. Hafa lögmenn stofunnar frá upphafi lagt á það ríka áherslu að aðstoða frumkvöðla og eigendur sprotafyrirtækja við fyrirtækjarekstur sinn. Það er von starfsmanna stofunnar að með nýrri skrifstofuaðstöðu fjölgi enn tækifærum til þess að aðstoða við þá spennandi uppbyggingu sem framundan er í Ásbrú.
Á Lögfræðistofu Suðurnesja starfa þeir Ásbjörn Jónsson, Garðar K. Vilhjálmssonar og Unnar Steinn Bjarndal, héraðsdómslögmenn. Á stofunni starfar einnig Jón Eysteinsson hæstaréttarlögmaður. Stofan er rótgróin og hefur veitt alla almenna lögmannsþjónustu á Suðurnesjum og víðar síðustu áratugi. Í júlí n.k. hefur stofan verið starfrækt í 50 ár.
Ásbrú er nafn á uppbyggingu sem hefur átt sér stað á fyrrum varnarsvæði Nató við Keflavíkurflugvöll. Svæðið hefur á undurskömmum tíma breyst í samfélag frumkvöðla, fræða og atvinnulífs. Á svæðinu er stærsti háskólagarður íslands, metnaðarfullt nám hjá Keili, eitt stærsta frumkvöðlasetur landsins, auk fjölda annarra spennandi verkefna á borð Orkurannsóknarsetur og fyrsta græna gagnaver Íslands. Fjölmörg ráðgjafar- og þekkingarfyrirtæki hafa komið sér fyrir á svæðinu – nú síðast Lögfræðistofa Suðurnesja.
Viðskiptavinum stofunnar er bent á að panta tíma hjá lögmönnum stofunnar í gegnum síma 420 4040 eða með því að senda tölvubréf á netfang stofunnar [email protected]
Mynd: F.v.: Lögfræðingarnir Ásbjörn Jonsson, Garðar Ketill Vilhjálmsson og Unnar Steinn Bjarndal.