Loftnetin áfram í fullu gildi
Það hefur verið útbreiddur miskilningur í gangi um að í framtíðinni verði eingöngu hægt að ná sjónvarpi í gegnum netið og að verið sé að leggja niður loftnetin. SART – Samtök rafverktaka vill vekja athygli á svo er ekki. Samningur RUV og Vodafone gerir ráð fyrir því að 99,8% landsmanna muni ná stafrænum útsendingum um loftnet. Þar með hefur framtíð loftneta á Íslandi verið tryggð. Samningurinn gerir ráð fyrir að Vodafone annist stafræna sjónvarps-dreifingu og rekstur dreifikerfa Ríkisútvarpsins næstu 15 árin.
Samningurinn felur í sér dreifingu á tveimur stafrænum háskerpu sjónvarpsrásum
(DVB-T2) til viðbótar við eina standard rás (DVB-T) fyrir RÚV. Gert er ráð fyrir að yfir 99,8% landsmanna að meðtöldum flestum sumarhúsasvæðum muni ná stafrænum útsendingum um loftnet. Stafrænu sjónvarpsdreifi-kerfin munu einnig flytja útvarpsrásir RÚV, en útvarps-dreifingin verður jafnframt áfram á FM og langbylgju.
Í fæstum tilvikum þarf aukabúnað
Núverandi hliðrænt dreifikerfi RÚV er víða á VHF sviði en stafrænu útsendingarnar verða á UHF sviði. Þar sem nýja, stafræna merkið er sterkt, einkum nálægt sendi, er hægt að nota VHF loftnet áfram en mælt er með að notast sé við UHF loftnet/greiður til móttöku á UHF sendingum. Ekki er þörf á nýjum loftnetssnúrum því stafræna merkið fer um sama koparvír (coax-loftnetssnúru) og notaður hefur verið fyrir hliðræna merkið til þessa. Nýrri sjónvörp þurfa fæst sérstakan móttökubúnað en við eldri tæki (einkum túbusjónvörp) þarf að tengja stafrænan móttakara sem fæst víða og er ekki dýr.
Háskerpa
Eftir því sem nýja stafræna dreifikerfið tekur við af hliðrænu útsendingunni færist útsendingin yfir í háskerpu. Stefnt er að því að fyrir árslok 2014 ráði RÚV yfir tveimur sjónvarpsrásum í háskerpu (DVB-T2) ásamt einni standard rás (DVB-T) sem náist um land allt. UHF dreifikerfi Vodafone verður stækkað og sendistöðum fjölgað. Útsendingar RÚV verða eftir sem áður opnar og ókeypis. Ekki er þörf á myndlykli eða áskrift að Vodafone til að ná þeim.
Loftnetsþjónusta
Á sumum svæðum gæti þurft að snúa loftnetum og beina þeim að nýjum sendistað. Í sumum tilfellum þarf ef til vill að endurnýja loftnet og annan búnað. Á heimasíðu SART-Samtaka rafverktaka má með lítilli fyrirhöfn finna fyrirtæki sem veita loftnetsþjónustu. Fyrirtæki þessi eru staðsett víða um land og hægt er að leita að þeim á vefnum t.a.m. með því að slá inn lands-hluta eða póstnúmer þess sem leitar eftir þjónustunni og finna þannig fyrirtæki á sama svæði. Slóðin á þjónustuvefinn er: http://www.sart.is/finna-thjonustuadila/