Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Miðvikudagur 20. júní 2001 kl. 10:27

Lífsstílsverslun í Leifsstöð

Bláa Lónið Heilsuvörur ehf. dótturfyrirtæki Bláa Lónsins hf., opnaði sína fyrstu lífstílsverslun í Íslandica, Flugstöð Leifs Eiríkssonar í síðustu viku. Vörurnar hafa verið til sölu í flugstöðinni frá því að þær komu fyrst á markað en Íslenskur markaður er stærsti útsölustaðurinn á eftir baðstaðnum. Ekki er enn farið að flytja vörurnar á erlendan markað en BLH hefur selt vörurnar á Internetinu til erlendra viðskiptavina.

Vinsælar vörur
„Okkur hefur borist mikið af fyrirspurnum í gegnum tíðina þar sem óskað er eftir söluleyfi. Það hefur ekkert lát orðið á þeim óskum en það er fyrst nú sem við teljum okkur undir það búin að skoða þau mál af alvöru“, segir Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir markaðsstjóri. Að sögn Lilju hefur salan gengið framar vonum og stöðugur vöxtur hefur verið milli ára frá því að vörurnar voru fyrst markaðssettar árið 1995.
Blue Lagoon húðverndarvörurnar grundvallast á einstökum virkum hráefnum frá heilsulindinni Bláa lóninu, þ.e. söltum, kísli og blágrænþörungi ásamt öðrum völdum náttúrulegum efnum. Vörurnar hreinsa og næra húðina og eru þróaðar með þurra og viðkvæma húð í huga. Engin sterk sápuefni eru notuð, vörurnar eru ofnæmis- og ertiprófaðar og fást bæði með og án frísklegra ilmefna.
Blue Lagoon vörurnar skiptast í 3 vörulínur: meðferðarvörur, geothermal spa vörulínu og stoðvörur. Ný andlitslína með 17 nýjum vörutegundum er væntanleg á markað í haust.

Framsetning skiptir máli
Hvaða þýðingu hefur þessi nýja verslun fyrir markaðssetningu varanna?
„Sökum sérstöðu og uppruna varanna hefur Bláa Lónið Heilsuvörur ehf gengið enn lengra við þróunina á vörum sínum og útvíkkað vöruhugtakið í svo kallað "lífsstílshugtak”, þar sem vörur, umgjörð um vörurnar (lífsstílsverslunin) og þjónusta hefur verið þróuð samhliða og mynda eina heild. Með þessu tryggjum við að framsetning varanna sé að okkar óskum auk þess sem umhverfið verður mun notendavænna og viðskiptavinurinn hefur greiðari aðgang að upplýsingum um vörurnar og uppruna þeirra auk þess sem hann fær betri skilning á heildarhugmyndinni. Það má segja að þetta sé fyrsta skrefið í erlendri markaðssetningu hjá okkur um leið og það eflir markaðssetninguna innanlands, en það er mjög þýðingarmikið að geta selt vörurnar í sínu rétta umhverfi“, segir Lilja.

Náttúrleg verslun
Hönnun verslunarinnar í Leifsstöð er mjög sérstök en hún endurspeglar náttúrulegt umhverfi Bláa lónsins. Hvítur litur er áberandi og táknar hreinleika Íslands. Hraun er í veggjum sem minnir á umhverfi Bláa lónsins og myndar skemmtilega andstæðu við hvíta litinn. Sandblásið blátt gler í hillum verslunarinnar minnir á hlýjan bláan lit lónsins. Gólfið sem helst líkist kísilbreiðu hefur að geyma glerspjald með mynd af grunnefnum varanna. Verslunin er hönnuð af iðnhönnunarfyrirtækinu Design Group Italia sem hefur einnig komið að hönnun umbúða og þróun vörulínunnar. Sigurður Þorsteinsson, iðnhönnuður er einn af eigendum DGI. Hann hefur yfir 10 ára reynslu í faginu. Verslunarstjóri í Íslenskum Markaði er Jenný K. Harðardóttir, en sölustjóri Blue Lagoon húðverndarvaranna  er María Kristmanns.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024