Lífsstíll kaupir Perluna
Vikar K. Sigurjónsson, eigandi Lífsstíls, hefur keypt líkamsræktarstöðina Perluna í Reykjanesbæ af Sigríði R. Kristjánsdóttur. Samningaviðræður um kaupin hafa staðið í nokkurn tíma en þau náðu samkomulagi nú í vikunni og hefur Perlan formlega skipt um eigendur.
Sigríður, eða Sigga í Perlunni, eins og hún er betur þekkt, hefur átt og rekið Perluna síðan 1998 og því rekið stöðina í áratug.
Í tilkynningu frá Perlunni segir að Vikar, sem er eigandi Lífstíls, hefur haft augastað á Perlunni í einhvern tíma og sagði Sigríður að það væri mikil eftirsjá í Perlunni en henni fannst skynsamlegast á þessum tímapunkti að selja, enda lagt gríðarlega vinnu í fyrirtækið undanfarin ár. „Þetta var ótrúlega erfið ákvörðun, enda þykir mér gríðarlega vænt um Perluna og allt sem henni tengist“. sagði Sigríður og bætti við: „Ég taldi þetta góðan tíma til þess að selja en ákvörðunin sem slík var langt frá því að vera auðveld. Nú taka við önnur spennandi verkefni“.
Sigríður mun fyrst um sinn starfa náið með nýjum eiganda og halda störfum sínum áfram í Perlunni a.m.k. í bili.
„Ég mun halda áfram með ákveðna tíma og einkaþjálfun mína enda er ég alls ekki hætt í líkamsrækt. Ég taldi það nú tímabært að fela reksturinn í hendur annars aðila og ég óska Vikari velfarnaðar með þetta allt saman“.
Sigríður vildi að endingu þakka öllum þeim frábæru og traustu viðskiptavinum sem hafa verið á stöðinni öll þessi ár og starfsfólkinu sínu. „Ég hef kynnst mörgu frábæru fólki í gegn um Perluna og eignast marga góða vini. Það er ljóst að ákvörðun mín kemur eflaust einhverjum á óvart, en ég gerði það sem var rétt fyrir mig, fjölskylduna og að ég tel fyrirtækið“.