Leiðtogafundur Samkaupa í Reykjanesbæ
75 stjórnendur 48 verslana Samkaupa komu saman á árlegum fundi.
Óvenju fjölmennt var í íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ þegar stjórnendateymi Samkaupa kom þar saman í síðustu viku. Að sögn Gunnars Egils Sigurðssonar forstöðumanns verslunarsviðs Samkaupa er það orðinn árlegur viðburður að stjórnendateyminu er þjappað saman á einum stað og unnið að málefnum félagsins.
Þetta er orðinn nokkuð stór hópur eða um 75 manns enda eru verslanirnar orðnar 48 og staðsettar um landið allt. Gunnar segir fundinn hafa verið mjög líflegan og árangursríkan fyrir margar sakir og ekki hafi spillt fyrir að hann skuli nú hafa verið haldinn í heimabæ Samkaupa, en félagið sé eins og margir vita afsprengi Kaupfélags Suðurnesja og ein elsta verslunarkeðja landsins.
Hjá Samkaupum starfa um 800 manns í 4 verslanakeðjum. Verslanirnar bera heitin Samkaup úrval, Samkaup strax, Nettó og Kaskó. Stórmarkaðirnir eru undir merkjum Samkaup úrval, hverfaverslanir eru undir merkjum Samkaup strax og lágvöruverðsverslanir undir merkjum Nettó og Kaskó.
Verslun og þjónusta er ein stærsta atvinnugrein landsins og matvörumarkaðurinn einn og sér veltir um 100 milljörðum á ári og er Samkaup með um 20% hlutdeild af þeirri sölu. Ljóst er að lágvöruverðsverslanir njóta mikilla vinsælda um þessar mundir og sést það best á örum vexti Nettó verslananna en þær hafa notið gríðarlegra vinsælda.
Frá fundinum í íþróttaakademíunni í Reykjanesbæ. VF-myndir/pket