Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Leðurverslunin KÓS sinnir mótorhjólafólki
Kristín Ellý Egilsdóttir og Grétar Baldursson. VF/SDD
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 8. ágúst 2023 kl. 06:10

Leðurverslunin KÓS sinnir mótorhjólafólki

Sjötugir eigendur vilja selja búðina

„Það voru margir frægir sem nýttu sér að geta látið sérsauma á sig leðurjakka, frægir leikarar og til dæmis hljómsveitin Skítamórall,“ segir Grétar Baldursson sem hefur rekið leðurverslunina KÓS ásamt eiginkonu sinni, Kristínu Ellý Egilsdóttur.

KÓS á sér sögu sem nær aftur til ársins 1993 en þá var búðin stofnuð og var á Laugaveginum í Reykjavík. Það voru hjónin Grétar og Kristín Ellý sem stofnuðu búðina, Grétar er úr Reykjavík en Kristín frá Grindavík, n.t.t. frá Skálholti sem er nafn húss við Víkurbrautina. Fyrst gerði KÓS eingöngu út á leðurtískufatnað en færði svo út kvíarnar og hóf einnig að þjónusta mótorhjólafólk.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjónin ákváðu að venda kvæði sínu í kross, flytja á æskuslóðir Kristínar og þau ætluðu sér að loka búðinni en ákváðu að gera út frá Grindavík, þó í smærra lagi. Í dag bjóða þau eingöngu upp á mótorhjólafatnað og fylgihluti fyrir mótorhjólafólkið. Þegar blaðamann Víkurfrétta bar að garði voru einmitt tveir mótorhjólamenn í búðinni og fóru klyfjaðir út.

Grétar fór yfir lífshlaup sitt og hvað varð til þess að þau hjónin stofnuðu leðurbúð. „Ég er fæddur árið 1950 og uppalinn í Reykjavík, fór strax að vinna eftir að grunnskólagöngu lauk og vann hina og þessa vinnu. Leiddist fljótt út í iðnaðarvinnu og ætlaði mér um tíma að verða múrari því tengdapabbi var í þeirri iðn. Svo ákváðum við að flytja til Danmerkur árið 1979, okkur langaði einfaldlega að breyta til. Ég vann áfram hina og þessa vinnu þar en svo fluttum við aftur um tíma til Íslands og vorum þá í Grindavík, bjuggum á efri hæðinni í Skálholti, þaðan sem Kristín er ættuð. Þá vann ég bæði hjá Jóa júdó við smíðar og í Mölvík hjá Víkurbræðrum á vertíðinni og Kristín vann hjá Hraðfrystihúsi Þórkötlustaða. Eftir einhvern tíma leitaði hugur okkar aftur til Danmerkur og ég fór að vinna við garðyrkju en svo slasaðist ég í baki og við fundum að við vildum flytja aftur til Íslands og fluttum endanlega til Íslands árið 1986. Ekki gat ég áfram unnið svipaða vinnu og ég hafði gert og því datt okkur í hug að opna búð.“

KÓS leðurverslun

Grétar byrjaði á að keyra sendibíl og vann líka fyrir sér sem leigubílstjóri en það blundaði í honum að opna búð. Honum fannst vera gat á fatamarkaðnum og sýndi fljótt áhuga á að opna leðurfatabúð. Hann gerði sér ferð til London, kíkti í búðir og komst fljótlega í kynni við leðurfatasölumann sem kynnti Grétar fyrir mörgum heildsölum og þar með byrjaði boltinn að rúlla. „Við opnuðum búðina árið 1993 og byrjuðum fljótlega að bjóða upp á sérsaumaða leðurjakka. Ég hannaði, tók snið og það sem þurfti að gera en svo var jakkinn saumaður í London. Það voru margir frægir sem nýttu sér þetta, leikarar og hljómsveitin Skítamórall dressaði sig upp í leðri hjá okkur. Þetta gekk vel en við unnum samt alltaf aðra vinnu samhliða, bæði var ég að keyra og við tókum að okkur skúringar fyrir fyrirtæki svo það má segja að það hafi verið nóg að gera. Til að byrja með gerðum við eingöngu út á tískufatnað en svo áttuðum við okkur eftir fimmtán ár á að markaður væri fyrir mótorhjólafatnað. Þá var sá fatnaður þannig að engar varnir voru í honum en svo varð þróun í því og í dag er allur mótorhjólafatnaður með vörn, hvort sem er á olnboga, hnjám eða hlíf fer á bakið á jakkanum. Fljótlega fór sala á leðurklæðnaði og fylgihlutum fyrir mótorhjólafólkið, eins og hjálmar, að verða stærri og stærri og undir það síðasta þegar við vorum með búðina á Laugaveginum, var sú sala orðin stærri hluti en tískufatnaðurinn,“ segir Grétar.

Flutt til Grindavíkur, KÓS til sölu

Þar sem Kristín er frá Grindavík og alltaf þótt vænt um gamla heimabæinn, fór að koma að því að hugur þeirra leitaði til Grindavíkur og eins og svo algengt er í dag, gátu þau selt íbúð sína í blokk í Reykjavík og keypt sér stærra húsnæði í Grindavík. „Við fundum að okkur fannst þetta vera orðið fínt og fórum að huga að því að loka búðinni, helst að selja. Við vorum í því ferli í tvö ár en svo kom að því að við fluttum til Grindavíkur en keyrðum áfram til Reykjavíkur til að reka búðina. Svo ákváðum við einfaldlega að loka í Reykjavík og þá átti leik að vera lokið. Við fundum samt að það kitlaði okkur að halda áfram og við fundum þetta fína húsnæði hér í Grindavík. Opnuðum á sama tíma netverslun og í dag er þetta kannski meira áhugamál hjá okkur. Við erum með opið frá 13 til 17 alla daga og fáum oftast margar heimsóknir en þar sem við erum eingöngu að gera út á mótorhjólafatnað er ekki grundvöllur fyrir opnun nema bara yfir sumartímann. Það er alltaf einhver sala fyrir jólin en mótorhjólasportið er nánast eingöngu yfir sumartímann. Ég er orðinn 73 ára gamall og finn að nú vil ég fara setja punkt aftan við þennan kafla í lífi mínu og vil selja búðina. Fyrir áhugasaman mótorhjólamann eða konu og hvað þá ef viðkomandi hefur áhuga fyrir leðurklæðnaði, er þetta kjörið tækifæri á að láta drauminn um að reka fatabúð rætast. Ég held ég sé með sanngjarna kröfu varðandi kaupverðið á búðinni og hvet viðkomandi einfaldlega til að hafa samband,“ sagði Grétar að lokum.

Kristín og Grétar að setja hlíf í leðurjakka