Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 17. nóvember 2000 kl. 10:00

Langbest - Allra best í mat

Þann 17. júní sl. reið Suðurlandskjálftinn yfir og Langbest brann til kaldra kola. Strax 4 dögum eftir brunann var búið að hreinsa allar gamlar innréttingar út úr veitingahúsinu og ákveðið var að endurbyggja staðinn í nýrri mynd. Húsnæðið var mun verr farið en sýndist í fyrstu en sá hluti byggingar Hafnargötu 62 sem Langbest tilheyrir, er elsti hluti hússins og var byggður á stríðsárunum. Þar hefur alla tíð verið starfrækt verslun og þjónusta en viðhald hefur verið í lágmarki. Það var því ljóst að mikil vinna var fyrir höndum. Duglegir iðnaðarmenn Það gekk mjög illa að fá góða iðnaðarmenn í verkið, því á þessum tíma var verið að klára grunnskólana og flestir iðnaðarmenn fastir við vinnu þar. Þá voru góð ráð dýr og fengu „Langbesthjónin“, þau Ingólfur Karlsson og Helena Guðjónsdóttir, óvæntan liðsauka, þá Jóhann B. Elíasson og Kristinn Rúnar Karlsson. „Við byggðum Langbest meira og minna saman og eiga þeir drengir mikið þakklæti skilið. Án þeirra hefðum við ekki opnað fyrir jól“, segir Helena. Fleiri iðnaðarmenn komu síðar að verkinu og hafist var handa að uppbyggingu af fullum krafti. Það tók u.þ.b. mánuð í viðbót að taka bygginguna í gegn. Skipt var um allar lagnir og glugga í húsinu og einnig var byggt við húsið baka til þannig að veitingasalurinn tekur nú 40 manns í sæti í stað 25 manns áður og nýr inngangur var gerður frá Hafnargötu. Að sögn Ingólfs stendur frekar lítið eftir af „Gamla Langbest“. Fullkomið eldhús „Verkið tók í heildina rúma fjóra mánuði, sem þykir ekki langur tími miðað við þær stórfelldu breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu. Matseðlinu var hins vegar ekki breytt. Hann var alltaf góður og gildur. Aðeins einu var bætt við hann og það eru brauðstangir sem hafa fallið í góðan jarðveg hjá Suðurnesjamönnum“, segir Ingólfur. Nýja eldhúsið er stolt hjónanna en þar var engu til sparað. Að sögn Ingólfs er það eitt fullkomnasta og best útbúna eldhús landsins. „Það er hannað samkvæmt kröfuhörðum kúnnum sem vilja fá góðan og ódýran skyndibita. Móttökurnar hafa verið frábærar, svo góðar að nýja eldhúsið hafði ekki undan að afgreiða Suðurnesjamenn þegar við opnuðum. Á tímabili var hætt að taka símapantanir, samt var sú þjónusta tvöfölduð“, segir Helena. Nú er Langbest með 6 símalínur í stað þriggja. „Við hjónin viljum þakka viðskiptavinum Langbest þolinmæðina og vonumst við eftir því að allir komist að í framtíðinni.“ Brennt barn forðast eldinn Helena og Ingólfur segja að það hafi verið mjög erfitt að horfa uppá fyrirtækið brenna, því flest tæki höfðu nýlega verið endurnýjuð. „Það var sárt að ganga inn daginn eftir og við okkur blasti ekkert nema rjúkandi rústir. Eitt lítið fjöltengi orsakaði eldsvoðann og brunavarnir voru ónógar. En maður lærir af mistökum og Langbest er í dag búið fullkomnu brunavarnarkerfi sem fyrirbyggir að svona lagað endurtaki sig. Fyrirtækið var vel tryggt og viljum við hjónin þakka VÍS fyrir gott samstarf og skilning. Í þessu tilfelli snérust tryggingarnar um fólk og viljum við hvetja fyrirtæki og einstaklinga að tryggja sig vel.“ Veisluborð og pizzur Langbest hefur um árabil boðið uppá margþætta þjónustu, s.s. jólahlaðborð og bakkamat en Langbest mun nú hætta að bjóða uppá þá þjónustu. „Að okkar mati eru allt of margir aðilar á svæðinu á því sviði en þess í stað höfum við ákveðið að vera eingöngu í skyndibita og bæta okkur á því sviði.“ Á Langbest starfar fjöldinn allur af duglegu og metnaðarfullu fólki sem leggur sig mikið fram við það að veita þá bestu mögulegu þjónustu sem völ er á. „Við hjónin leggjum mikla áherslu á að gera vel við okkar fólk sem skilar sér í góðum starfsanda. Það er alltaf mikið að gera hjá okkur í kringum hátíðarnar. Fyrirtæki og stofnanir streyma í jólahlaðborðin til okkar á meðan unga kynslóðin, sem heima situr, pantar pizzur.“ Ingólfur og Helena vilja þakka Samkaupsfólki og Glóðinni fyrir þolinmæðina sem starfsfólkið þar sýndi á meðan framkvæmdir stóðu yfir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024