Landsvirkjun og Íslenska kísilfélagið ehf. undirrita raforkusölusamning
Landsvirkjun og Íslenska kísilfélagið ehf., sem er í meirihlutaeigu bandaríska fyrirtækisins Globe Speciality Metals, hafa undirritað raforkusölusamning um kaup á 35 MW orku frá Landsvirkjun. Íslenska kísilfélagið hyggst reisa 40.000 tonna kísilmálmverksmiðju í Helguvík á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði tekin í notkun um mitt ár 2013. Raforkuþörf verksmiðjunnar er 65 MW og mun Landsvirkjun fyrst um sinn útvega verksmiðjunni 35 MW og HS Orka 30 MW. Í samningnum er gert ráð fyrir að Landsvirkjun sinni allri raforkuþörf verksmiðjunnar frá 1. janúar 2016.
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir samninginn marka ákveðin tímamót: „Hjá Landsvirkjun höfum við stefnt að því að auka fjölbreytileika á meðal orkukaupenda og ber samningurinn vitni um árangur þess starfs. Hér er um að ræða nýja iðngrein, magn sem hæfir orkuframboði nú um stundir og iðnað sem greiðir hærra verð en fyrir þekkist á íslenska markaðnum. Hér er um grunniðnað að ræða en að okkar mati felast áhugaverðir vaxtarmöguleikar í tengdri og afleiddri starfsemi, til dæmis hreinsun á kísilmálmi,“ segir Hörður.
Samningur Landsvirkjunar og Íslenska kísilfélagsins er gerður í Evrum og er til átján ára með föstum raunhækkunum sem koma til framkvæmda á samningstímanum. Samkvæmt ákvæðum í samningnum er samningsaðilum ekki heimilt að gefa upp verð samningsins að svo stöddu.
Samningurinn er undirritaður með hefðbundnum fyrirvörum, meðal annars samþykki stjórna beggja félaganna auk fyrirvara frá Íslenska kísilfélaginu ehf. um lúkningu á öðrum samningum til þess að hægt sé að ljúka við verkefnið. Gert er ráð fyrir að búið verði að uppfylla alla fyrirvara fyrir 15. júní næstkomandi.
Myndin: Íslenska kísilfélagið ehf. skrifaði undir marga samninga í dag. VF-mynd: Páll Ketilsson