Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Landsnet semur við Thorsil um raforkuflutninga fyrir kísilver í Helguvík
Mánudagur 19. október 2015 kl. 13:29

Landsnet semur við Thorsil um raforkuflutninga fyrir kísilver í Helguvík

Forstjóri Landsnets undirritaði í dag samkomulag um raforkuflutninga fyrir kísilver Thorsil ehf. í Helguvík. Gert er ráð fyrir að rekstur kísilversins hefjist í ársbyrjun 2018 og skal framkvæmdum Landsnets lokið í desember 2017. Áætlaður kostnaður við tengingu kísilvers Thorsil við meginflutningskerfi Landsnets er um 2,5 milljarðar króna, segir í frétt frá Landsneti.

Samkvæmt samkomulaginu skal Landsnet tryggja orkuflutninga til kísilvers Thorsil með tengingu við raforkuflutningskerfið á Reykjanesi. Það verður gert með lagningu 132 kílóvolta (kV) jarðstrengs milli Fitja og Stakks, tengivirkis Landsnets sem nú er verið að byggja í Helguvík, og stækkun tengivirkisins. Undirbúningur að hönnun verksins hefst strax hjá Landsneti og er stefnt að því að fyrstu framkvæmdir hefjist haustið 2016.

„Þessi framkvæmd eykur afhendingaröryggi til viðskiptavina okkar í Helguvík því að tveir 132 kV jarðstrengir verða á milli Stakks, afhendingarstaðar okkar þar, og tengivirkisins á Fitjum að framkvæmdum loknum. Jafnframt styttist í að framkvæmdir hefjist við Suðurnesjalínu 2, milli Hafnarfjarðar og Rauðamels, sem styrkir flutningskerfið á Reykjanesi til muna og gjörbreytir afhendingaröryggi raforku fyrir bæði íbúa og fyrirtæki á svæðinu,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Kostnaður við tengingu kísilvers Thorsil við meginflutningskerfi Landsnets og stækkun tengivirkisins Stakks í Helguvík er áætlaður um 2,5 milljarðar króna. Áætluð aflþörf kísilvers Thorsil er 87 megavött (MW) að jafnaði og verða framleidd um 54 þúsund tonn af kísilmálmi þar á ári í tveimur ofnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tengivirki Landsnets, Stakkur, í Helguvík.

Þessi mynd sýnir verksmiðju Thorsil en verksmiðja United Silicon sést ekki á þessari mynd. Hún verður sunnan við þessa en horft er til norðurs.