Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Lætur drauminn rætast og framleiðir húðvörur
Svandís er frumkvöðullinn á bak við Skinboss húðvörurnar. Hún setti fyrstu vörurnar á markað í nóvember og hefur fengið glimrandi góðar móttökur. VF-mynd/dagnyhulda
Laugardagur 30. janúar 2016 kl. 07:00

Lætur drauminn rætast og framleiðir húðvörur

- Tínir jurtir á fjöllum yfir sumarið

Svandís Ósk Gestsdóttir er frumkvöðull og eigandi húðvörufyrirtækisins Skinboss. Hún setti fyrstu vörurnar á markað fyrir nokkrum vikum og hefur fengið glimrandi góðar mótttökur. Svandís er 32 ára og ólst upp í Garði en býr nú í Keflavík. Hún er vakin og sofin yfir fyrirtækinu sínu Skinboss enda eru húðvörur hennar helsta áhugamál. Hún sagði meira að segja skilið við Facebook á meðan hún var að þróa vörurnar til að spara tíma en er nú byrjuð aftur enda samfélagsmiðlarnir nauðsynlegir í markaðssetningu.
 
Svandís var með mikið exem frá 18 ára aldri og reyndi árum saman að vinna bug á því með ýmsum kremum sem henni var ávísað af lækni. „Ég var búin að reyna allt en það gekk ekki. Svo var mér ekki vel við öll aukaefnin sem eru í þessum kremum,“ segir hún. Svandís vann í apóteki í níu ár og hafði í starfi sínu mikið skoðað innihald í kremum. „Það var augljóslega mikil þörf á markaðnum fyrir hreinar, virkar vörur vegna húðvandamála, hvort sem það er til fegrunar eins og gegn appelsínuhúð og slitum eða gegn óþægindum, eins og þurrki og exemi,“ segir hún.
 
Kaffiskrúbburinn er meðal annars búinn til úr kaffi frá Kaffitári.
 
Grúskaði í sex ár
Fyrir sex árum fór Svandís svo að kynna sér hvernig hún gæti búið til sínar eigin húðvörur í baráttunni við exemið. „Ég byrjaði að þróa skrúbb sjálf heima og fann að ég varð miklu betri eftir þrjá mánuði.“ Auk þess sem einkenni exemsins hurfu fann Svandís að húðin varð betri og appelsínuhúð fór. Síðan þá hefur hún varið mestum hluta af sínum frítíma í að afla sér upplýsinga um húðvörur á netinu, ýmist með grúski á bókasafninu, samtölum við grasalækna og lyfjafræðinga og hefur hún kynnt sér nær allt sem húðvörum viðkemur. Það má því segja að hún sé orðin sjálflærður snyrtivörufrumkvöðull. Á endanum sagði hún svo upp starfinu sínu og stofnaði sitt eigið fyrirtæki.
 
Svandís leggur áherslu á að selja vörurnar sínar í litlum búðum á Íslandi. Búðir í London, Beverly Hills og í Kanada hafa einnig lýst yfir áhuga á að taka vörunar í sölu. Svandís segir ferlið við að koma Skinboss á laggirnar hafa verið nokkuð erfitt en að hún hafi komið vörunum á framleiðslustig með þrjóskunni. Litið sé á húðvörur sem hjól sem búið er að finna margoft upp. „Ég var samt svo heppin að fá styrk frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og er að spara hann fyrir umbúðum um vörurnar síðar meir.“ 
 
 
Tínir hráefni á hálendinu
Verksmiðja Svandísar er í Eldey, frumkvöðlasetrinu á Ásbrú. Hún er eini starfsmaðurinn enn sem komið er en fær hjálp frá fjölskyldunni þegar mikið liggur við. Mesta vinnan fer fram yfir sumartímann en þá tínir Svandís jurtir uppi á hálendinu og þarf dágott magn. „Ég fer eins langt upp á fjöll og ég get, fjarri bílaumferð og fólki. Þar týni ég vallhumal, birki, blóðberg, fjallagrös og ýmsar smájurtir.“
 
 
Svandís ásamt Halldóru vinkonu sinni.
 
Fyrstu húðvörur Skinboss voru baðsalt, andlitsmaski og kaffi líkamsskrúbbur og komu þær á markað í nóvember síðastliðnum og hafa viðbrögðin verið mjög góð. Skrúbburinn er meðal annars búinn til úr fersku, möluðu kaffi frá Kaffitári. Svandís segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og nú er kominn langur biðlisti eftir andlitsmaskanum. Hún er búin að þróa fleiri vörur sem fara á markað á næstu misserum. Búið er að prufa allar vörurnar hjá Matís og að sögn Svandísar var útkoman góð.
 
 
Sækir hráefni víða um heim
„Ég er núna byrjuð að fá sendar myndir af árangrinum frá stelpum og það er mjög gaman. Það sést mikil breyting á aðeins þremur vikum. Appelsínuhúð minnkar, húðin er stinnari og áferð húðarinnar verður miklu heilbrigðari.“ Undanfarin tvö ár hefur hópur kvenna prufað vörurnar. Svandís hefur þá reglu að framleiða ekki vörur nema þær sýni árangur eftir eitt skipti. Hún segir sérstöðu húðvaranna mikla, einkum að í þeim sé ekkert vatn. „Þar af leiðandi er enginn bakteríugróður og ekki þörf fyrir annað en náttúruleg rotvarnarefni. Svo set ég aðeins náttúruleg efni í vörurnar. Ég er til dæmis með macha te frá Japan, leir frá Frakklandi, olíur frá Tahíti og úr Amazon frumskóginum. Það má því segja að ég sé með það besta frá hverju heimshorni í bland við íslenska náttúru.“
 
 
Nánari upplýsingar um Skinboss vörurnar má nálgast á vefnum skinboss.is og á Facebook-síðunni Skinboss

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Svandís framleiðir Skinboss vörurnar í Frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú.