Kynnisferðir kaupa SBK
Kynnisferðir ehf. hafa keypt allt hlutafé í SBK ehf. af Ólafi Guðbergssyni, Sigurði Steindórssyni og SBA – Norðurleið.
Rekstrarform SBK verður óbreytt, rekið sem sjálfstæð eining og er stefna þeirra að efla uppbyggingu á svæðinu að sögn Einars Steinþórssonar framkvæmdastjóra Kynnisferða í tilkynningu til viðskiptavina. Einar er ekki ókunnugur á svæðinu þar sem að hann var framkvæmdastjóri SBK 1999 - 2006.
Kynnisferðir eru með mjög öflugt sölu- og tengslanet er það stefna fyrirtækisins að nota það til að efla ferðaþjónustu á Reykjanesi, segir jafnframt í tilkynningunni.
„Viljum við þakka öllum þeim fjölda viðskiptavina sem hafa átt viðskipti við SBK í gegnum árin fyrir góð og farsæl viðskipti. Vonumst við til að nýir eigendur njóti sömu viðskipta og góðvildar eins og þið hafið sýnt í okkar garð,“ segja þeir Ólafur Guðbergsson og Sigurður Steindórsson í tilkynningu til viðskiptavina SBK.
SBK er elsta starfandi hópferðafyrirtæki landsins, stofnað 1930. Hjá fyrirtækinu starfa 15-18 starfsmenn og meginstarfsemin felst í rekstri strætisvagna í Reykjanesbæ, áætlunarferða milli Reykjavíkur og Suðurnesja, skólaakstri og hópferðum, ásamt samningsbundnum verkefnum. SBK verður rekið áfram í óbreyttri mynd, sem sérfélag. Engar stórbreytingar verða gerðar á rekstrinum og fyrirtækið mun áfram einbeita sér að vinnu á Suðurnesjum og kappkosta að veita áfram góða þjónustu og gott verð.
Kynnisferðir ehf. er meðal stærstu rútufyrirtækja landsins með á milli 100 – 220 starfsmenn eftir árstíðum. Fyrirtækið rekur Flugrútuna, dagsferðir fyrir ferðamenn, samningsbundin verkefni og hópferðir. Ársvelta fyrirtækisins er u.þ.b. 2 milljarðar.
SBK og Kynnisferðir vonast til að eiga áfram sem hingað til gott samstarf við heimamenn, fyrirtæki og sveitarstjórnir við uppbyggingu samgöngu- og ferðamála á Suðurnesjum.