Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Keflavíkurflugvöllur í 8. sæti í alþjóðlegri ánægjumælingu
  • Keflavíkurflugvöllur í 8. sæti í alþjóðlegri ánægjumælingu
Föstudagur 15. desember 2017 kl. 09:51

Keflavíkurflugvöllur í 8. sæti í alþjóðlegri ánægjumælingu

Keflavíkurflugvöllur er með áttundu ánægðustu farþega heims samkvæmt mælingum með Happy or Not stöndum svonefndum, sem eru ánægjumælingartól. Standarnir eru víðsvegar í flugvallarbyggingunni og notaðir til að greina sveiflur í þjónustu og upplifun ferðafólks niður á hvern klukkutíma dagsins.
 
Það er finnska fyrirtækið HappyOrNot sem birtir niðurstöðurnar úr mælingum frá 160 flugvöllum í 36 löndum. CNN Europe birti fyrstu frétt um málið. Byggt er á gögnum sem var safnað frá nóvember 2016 til nóvember 2017. Mæld var reynsla fólks af öryggisleit, farangursafgreiðslu, salernum og fleiru.
 
Keflavíkurflugvöllur er í áttunda sæti af þessum 160 flugvöllum og ánægjan þar meiri en til dæmis hjá farþegum sem fóru um Heathrow-flugvöll í Lundúnum og Óslóarflugvöll.
 
Hamingjan er mest á Exeter-flugvelli í Englandi en í öðru til þriðja sæti eru Flugvöllurinn í Cork á Írlandi og Leonardo da Vinci-Fiumicino flugvöllurinn í Róm.
 
Í frétt CNN segir að svo virðist sem Keflavíkurflugvöllur hafi tekist með aðdáunarverðum hætti að ráða við mikinn uppgang í ferðaþjónustu. 6.8 milljón farþegar hafi farið um Keflavíkurflugvöll 2016 – fimm milljón fleiri en 2004. Þrátt fyrir þessa aukningu hafi 86,35% farþega verið hamingjusamir þegar þeir gáfu svör sín í gegnum HappyOrNot-standana.
 
„Það er afskaplega gleðilegt að sjá að upplifun ferðafólks sem fer um Keflavíkurflugvöll er svo jákvæð sem raun ber vitni,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. „Ég vil þakka starfsfólki Isavia og starfsfólki allra rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli fyrir það frábæra starf sem er unnið til að tryggja að öll starfsemi flugvallarins gangi vel fyrir sig. Þessi niðurstaða renni frekari stoðum undir þær upplýsingar sem við höfum fengið úr öðrum mælingum um ánægju farþega.“
 
Fram kemur í úttektinni að farþegar séu líklegri til að þrýsta á græna hnappinn – til marks um ánægju – þegar klukkan er 9 að morgni á þriðjudegi í október- eða nóvembermánuði.
 
Ferðalangar eru hins vegar ólíklegri til að ýta á græna hnappinn þegar þeir eru að bíða eftir farangri sínum klukkan 2 eða 3 að nóttu um helgi í júlímánuði. Þá sé minni ánægja við heimkomu á sunnudegi – þegar vinnuvikan bíði fólks.
 
Þá er ferðafólk síður ánægt í apríl og júlí þegar yfirleitt er mikið að gera á flugvöllum á háannatíma um páska eða mitt sumar.
 
Það er Advania sem veitir Isavia mælingarþjónustuna.
 
Flugvellir þar sem ánægjan var mest: 
 
1. Exeter-flugvöllur, Bretland -- 88.66%
2.-3. Cork-flugvöllur, Írland -- 88.45%
2.-3. Leonardo da Vinci-Fiumicino flugvöllur (Róm), Ítalía -- 88.45%
4. Dallas Fort Worth alþjóðaflugvöllurinn, Bandaríkin-- 87.35%
5. Newcastle alþjóðaflugvöllurinn, Bretland -- 87.05%
6. London Southend flugvöllur, Bretland -- 86.79%
7. Cardiff flugvöllur, Bretland -- 86.57%
8. Keflavíkurflugvöllur, Íslandi -- 86.35%
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024