Keflavíkurflugvöllur hætti kolefnislosun í starfsemi sinni fyrir 2050
Á 29. ársþingi ACI EUROPE, evrópudeildar Alþjóðasamtaka flugvalla, á Kýpur í morgun skrifaði Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, undir skuldbindingu um að Keflavíkurflugvöllur muni hætta allri kolefnislosun í beinni starfsemi sinni í síðasta lagi árið 2050.
Þessi yfirlýsing var gefin út samfara því að ACI EUROPE tilkynntu um NetZero 2050-skuldbindingu rekstraraðila flugvalla með formlegum hætti. Hún felur í sér að flugvellirnir hætta kolefnislosun í sinni starfsemi í síðasta lagi árið 2050. Þessi sameiginlega skuldbinding, sem undirrituð var af 194 flugvöllum sem reknir eru af 40 rekstraraðilum í 24 löndum, er stórt skref í baráttu flugvalla gegn loftslagsbreytingum.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia:
„Við á Keflavíkurflugvelli styðjum þessa yfirlýsingu. Með undirritun hennar lýsum við yfir ásetningi okkar í umhverfismálum með ótvíræðum hætti. Við höfum unnið markvisst að því að minnka kolefnaútblástur okkar síðan árið 2015 og höfum lokið við annað stig af fjórum í innleiðingu á kolefnisvottun ACA (Airport Carbon Accreditation). Það þýðir að við höfum kortlagt kolefnisspor okkar, gripið til aðgerða til að minnka kolefnislosun og sett markmið í þeim efnum.“
Dr. Michael Kerkloh, forseti ACI EUROPE og framkvæmdastjóri flugvallarins í München:
„Með NetZero2050-skuldbindingunni eru flugvellir að samstilla sig við Parísarsamkomulagið og hið nýja loftslagsmarkmið sem Evrópusambandið setti sér í síðustu viku.“
Patricia Espinosa, framkvæmdastjóri UNFCCC (Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar):
„Í skýrslu IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar) frá því í október síðastliðnum er lögð áhersla á mikilvægi þess að hætta losun gróðurhúsalofttegunda fyrir miðja öldina. Allir geirar í samfélaginu þurfi að vinna saman að þessu endanlega markmiði. Það er því hvetjandi að sjá flugvallarrekendur setja markið hærra.“
Fresturinn til ársins 2050 er í samræmi við nýjustu gögn IPCC og þá stefnu framkvæmdastjórnar ESB sem tekin var upp af ráðherraráði Evrópusambandsins, um að þróa notkun orkugjafa í átt að lægra hlutfalli kolefna (decarbonization).