Keflavíkur Valdís slær í gegn
Keflvíkingurinn Gylfi Valdimarsson er nýr ískóngur í Reykjavík.
„Traffíkin hefur aukist jafnt og þétt og bara minnkar aldrei. Það virðist ekki skipta neinu máli hvernig veðrið er. Það hefur jú oft verið sagt að sól auki sölu á ís en hjá okkur hafa nýjungar greinilega fallið í kramið hjá landanum,“ segir nýjasti ískóngurinn á Íslandi, Keflvíkingurinn Gylfi Valdimarsson en hann opnaði ísbúðina Valdísi úti á Granda í Reykjavík í maí síðastliðnum.
Gylfi segir að í Valdísi sé allur ís gerður frá grunni á staðnum, engar blöndur komi frá öðrum framleiðendum. „Það er allt betra ef þú sérð hlutina gerða á staðnum. Við gerum vöffluformin hér á staðnum og það er yndislegt að finna lyktina af þeim. En það er auðvitað fleira. Við erum í skemmtilegu húsnæði hér úti á Granda, tónlistin og jafnvel bílastæðin heilla en auðvitað í fúlustu alvöru gerði ég ekki ráð fyrir svona viðbrögðum. Þetta er búið að vera algert fíaskó, alger „sökksess,“ segir nýi ísmaðurinn.
Ítarlegt viðtal við Gylfa um þetta skemmtilega ævintýri í prentútgáfu Víkurfrétta á morgun.
Nokkrar Valdís-ir í Valdísi.