Jólalegt handverk hjá Huldu og Hrafni
Hulda og Hrafn í Raven Design hafa selt jólaóróa síðan 2004. Sá fyrsti var jólatré og einungis úr við. Árið þar á eftir var snjókarl, síðan gamalsdags jólasveinn og næst jólabjallan eftir það. Óróinn fyrir árið 2008 var laufabrauð, það var fyrsta árið sem fyrirtæki þeirra var einnig með jólaóróa í plexí gleri.
„Ég skar mynstrið út í Kristjáns laufabrauðsköku sem síðan var skönnuð ósteikt inn í tölvu svo hægt væri að skera myndina í leisernum á hvað sem er. Við höfðum beðið um leyfi til að nota mynstur frá Hugrúnu í Laufa-brauðssafninu fyrir norðan án árangurs svo við fórum þessa leið og sjáum ekki eftir því,“ segir Hulda Sveinsdóttir handverkskona í Raven Design.
Hún segir okkur áfram frá jólaóróanum: „Vonarstjarnan kom 2009 en það kom til vegna vonleysis sem ríkti um allt land og okkur þótti þurfa á ábendingu um að ekki væri allt svo svart að ekki væri nein von, peningar væru ekki allt. Ást og englar komu árinu seinna en það var til að minna okkur á hve rík við værum í raun þegar vinir og ættingjar, börn og barnabörn væri annars vegar. Jólaóróinn í ár heitir Kærleikur og er í laginu eins og hjarta. Skilaboðin þar eru að það er gott að gefa, það kemur frá hjartanu“.
Handverk og hönnun hefur valið jólaóróa þeirra inn á jólasýningu sína síðan þau fyrst sóttu um þátttöku eða árið 2008.
Af annarri nýrri framleiðslu Raven Design í Reykjanesbæ má nefna plexí gler jólatré fyrir borð er nýtt í ár. Þar er tvennt tvinnað saman, annars vegar fyrsti jólaóróinn þeirra, jólatréð og síðan vonarstjarnan sem er efst á tréinu og sem skraut á sjálfu tréinu. Kertastjakarnir „fæddust“ einnig 2011 og eru þjóðlegir, ýmist úr glæru plexí eða úr hömruði plexí sem kallast „ís krystall“. Plexí jólaóróar og kertastjakar koma í svörtum gjafakössum.
„Fyrir utan jólavörurnar okkar þá búum við til yfir 80 vörur allt verður þetta til í 100 ára gömlu fjósi hér í Njarðvík sem við höfum verið að gera upp sem heimili okkar og „opna“ vinnustofu fyrir Raven Design handverksfyrirtækið. Það sem ég á við hér er að allir eru velkomnir að hringja og/eða koma til okkar í vinnustofuna heima í fjós þegar verið er að leita að fall-egum gjöfum, við bjóðum upp á skart úr leðri og plexí, ostabakka, servíettuhringi, glasabakka og nú nýlega kertastjaka úr hömruðu plexí gleri svo eitthvað sé nefnt,“ segir Hulda Sveinsdóttir í samtali við Víkurfréttir.
Frekari upplýsingar eru að finna á www.ravendesign.is og www.facebook.com/ravendesign eða bara hringja í 6616999.