Jarðboranir bora tvær til þrjár holur á Reykjanesi
Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku hf, og Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Jarðborana, undirrituðu sl. þriðjudag samning um borun á tveimur holum á Reykjanesi með möguleika á borun þeirrar þriðju, ásamt viðgerð á einni holu.
Samningurinn var gerður að undangenginni verðkönnun á verkefninu hjá Jarðborunum hf og Borfélagi Íslands en tilboð beggja aðila voru mjög hagstæð fyrir HS Orku hf.
Borun á þessum holum er til að tryggja núverandi rekstur orkuversins með nauðsynlegu varaafli og um leið til að leggja drög að orkuöflun fyrir stækkun orkuversins.
Jarðboranir munu flytja til landsins frá Danmörku Bentec bor sinn sem er stærsti bor sem hér hefur borað með 350 tonna lyftigetu. Borinn er að því leiti sérstakur að hann verður knúinn með raforku frá orkuverinu í stað hefðbundinna díselvéla. Borin mun koma til landsins eftir u.þ.b. mánuð en reiknað er með að borverkið hefjist um miðjan nóvember, segir á heimasíðu HS Orku.