Jafnvægi í verði en áfram mikil eftirspurn
- segir Guðlaugur H. Guðlaugsson, fasteignasali í Stuðlabergi
„Það er komið komið meira jafnvægi á fasteignamarkaðinn eftir frekar óeðlilegt ástand undanfarin 2–3 ár þegar slegist var um hverja eign sem flestar seldust yfirverði. Það er samt alveg ljóst að það er mikil hreyfing á markaðnum og verður áfram því svæðið er í mikilli sókn sem sér ekki fyrir endann á,“ segir Guðlaugur H. Guðlaugsson, fasteignasali og eigandi fasteignasölunnar Stuðlabergs sem hefur verið starfrækt í rúman aldarfjórðung í Reykjanesbæ. Guðlaugur og starfsfólk fögnuðu stækkun skrifstofunnar við Hafnargötu 20 nýlega en á henni starfa fimm manns, þar af fjórir löggiltir fasteignasalar.
Sérstakt ástand eftir hrun
Guðlaugur segir að mikil hækkun hafi orðið á fasteignamarkaðinum á Suðurnesjum en sérstakt ástand varð eftir bankahrun og mikið framboð varð til eftir byggingahrinu árin fyrir hrunið. Á undanförnum 3–4 árum hafi leiðin hins vegar legið upp á við. Íbúðalánasjóður átti mikið magn eigna í Reykjanesbæ og nágrenni og bauð fjölda íbúða í pökkum sem aðilar keyptu og nýttu sér að nú var kominn kaupendamarkaður. Guðlaugur segir að einnig hafi margir einstaklingar nýtt sér kaupendamarkað og gert góð kaup. Nú sé staðan hins vegar orðin önnur og jafnvægi hefur verið að myndast á undanförnum mánuðum. Þá séu byggingaverktakar loksins komnir í framkvæmdagír í kjölfar þess að verðið hækkaði og eftirspurnin jókst. Nú er hún mikil, sérstaklega eftir minni íbúðum og þá sé einnig mikil ásókn eftir leiguíbúðum. „Það þarf að vera jafnvægi og framboð á báðum stöðum, fyrir þá sem vilja kaupa og þá sem vilja leigja. Byggingaverktakar hafa tekið við sér og núna eru mörg hundruð íbúðir í byggingu og verða næstu árin. Mér líst vel á það sem er farið af stað og er að fara af stað. Þetta eru spennandi eignir við ströndina í Keflavík og einnig í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ. Svo eru í pípunum framkvæmdir við fjölda nýrra minni íbúða við Nesvelli í Reykjanesbæ. Innri-Njarðvík fer ekki miklu nær höfuðborginni á næstunni heldur mun svæðið þéttast,“ segir Guðlaugur en lang flestar nýjar íbúðir eru í því hverfi.
Aðspurður um verðið á eignunum á Suðurnesjum segir Guðlaugur að það sé komið aftur nær verði fasteigna á höfuðborgarsvæðinu og er t.d. um 80–90% af verði eigna að Ásvöllum í Hafnarfirði. „En Suðurnesjamarkaðurinn á líklega eitthvað inni og hver veit nema að munurinn haldi áfram að minnka.“
Skólahverfin vinsæl
Vinsælustu hverfin á Suðurnesjum eru skólahverfin í Reykjanesbæ. Guðlaugur segir að það hafi verið góð sala í öllum byggðarlögum á Suðurnesjum, ekki bara í Reykjanesbæ heldur líka í Grindavík, Sandgerði, Garði og Vogum en þar var nýlega greint frá byggingaframkvæmdum sem munu þrefalda íbúatölu sveitarfélagsins á næsta áratug. „Það er ljóst að mikið framboð af atvinnu hefur sogað fólk til Suðurnesja. Allt þetta fjör í ferðaþjónustunni og gríðarleg uppbygging á Keflavíkurflugvelli og hún verður mjög mikil næstu árin, fyrir milljarða tugi.“
Með nýjum íbúðum inn á markaðinn mun fólk á miðjum aldri kaupa minni eignir og nýrri og við það losna margar eldri eignir, m.a. stærri eignir. Guðlaugur er ekki hræddur við að það verði ekki eftirspurn eftir þeim, stærri eldri eignir séu iðulega vinsælar hjá yngri fjölskyldum. Eignir á verðbilinu 40 til 60 milljónir seljist vel en verð á dýrustu eignunum á enn langt í land hvað verðlagningu varðar sé tekið mið af Reykjavík og nágrenni. Enn séu dýrustu eignir á Suðurnesjum ekki komnar yfir 100 milljónir kr. en það muni þó gerast á einhverjum tímapunkti. Guðlaugur segir að fólk á öllum aldri hafi verið að flytja suður með sjó, bæði ungt fólk og eldra. „Ég var á dögunum að ganga frá kaupsamningi við fólk á besta aldri frá Djúpavogi sem er að flytja hingað. “
Leiguíbúðir fyrir aldraða
Guðlaugur segir að innkoma stóru leigufélaganna hafi verið jákvæð og þá er hann sáttur með þróunina á Ásbrú þar sem í boði hafa verið leiguíbúðir og einnig íbúðir til kaups á hagstæðu verði. Hann segir þó nauðsynlegt að fá líka leiguíbúðir í Reykjanesbæ og nágrenni fyrir eldri borgara sem séu ekki allir að kaupa.
En er hann bjartsýnn á fasteignamarkaðinn í náinni framtíð á Suðurnesjum?
„Já, ég á von á því að verðin hækki áfram en þó bara eitthvað sem við getum kallað eðlilegt, 6–8%,“ sagði Guðlaugur Helgi.
Páll Ketilsson tók meðfylgjandi myndir þegar Stuðlaberg fagnaði stækkun skrifstofu sinnar á dögunum.