Íslenskar kleinur og pönnukökur á GeoSilica kynningu í Ástralíu
„Það gleður okkur að fá Íslending til liðs við okkur sem finnur svona sterka tengingu við vörurnar og Ísland. GeoSilica er nú þegar búið að gera góða hluti í Ástralíu og við hlökkum mikið til framhaldsins. Það var ótrúlega gaman að koma svona langt að heiman, alla leið til Ástralíu og hitta þá viðskiptavni sem við eigum þar. Fríða hefur gert ótrúlega flotta hluti með GeoSilica og á hún orðið marga viðkiptavini sem kaupa af henni flösku eftir flösku,“ segir Fida Abu Libdeh, framkvæmdastýra GeoSilica í Reykjanesbæ eftir vel heppnaða ferð hinum megin á hnöttinn.
Fida Abu Libdeh framkvæmdastýra GeoSilica og Steinunn Ósk Valsdóttir markaðsfulltrúi GeoSilica fóru í ferðalag í byrjun júlí til Ástralíu þar sem haldinn var GeoSilica viðburður. Vörurnar eru komnar á ástralska markaðinn þar sem íslensk kona að nafni Fríða Björk hefur gerst dreifiaðili í Ástralíu. Fríða Björk er íslensk en hefur búið meiri hluta ævi sinnar í Ástralíu. Verslunin sem Fríða selur vörurnar meðal annars í er staðsett á Gold Coast við strendur Ástralíu, þar sem viðrar vel þrátt fyrir að vetur sé þeim megin á jörðinni þegar það er sumar á Íslandi. Fida og Steinunn hittu Fríðu í fyrsta skipti en hún hefur verið að selja vörurnar í rúma 8 mánuði með góðum árangri.
Að sögn Steinunnar mættu margir reglulegir viðskiptavinir GeoSilica í Ástralíu ásamt gestum og gangandi á viðburðinn. Boðið var upp á kleinur og íslenskar pönnukökur í tilefni dagsins. „Við Fida kynntum vörurnar fyrir gestunum, nýtt útlit vörulínunnar og REFOCUS, nýjustu viðbótina, ásamt því að spjalla og kynna vörumerkið enn frekar fyrir áhugasömum Áströlum. Viðburðurinn gekk vonum framar og eru starfssystur spenntar fyrir framhaldandi samstarfi,“ segir Steinunn.
Hér má sjá nánar um www.GeoSilica.com