Íslenska Ánægjuvogin 2006: Hitaveita Suðurnesja í 1. sæti
Hitaveita Suðurnesja hf. hreppti 1. sæti meðal orkufyrirtækja hjá Íslensku ánægjuvoginni fimmta árið í röð en verðlaunin voru afhent á Nordica Hótel í gærmorgun.
Flokkur orkufyrirtækja samanstendur af Hitaveitu Suðurnesja, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurorku. Hitaveita Suðurnesja hefur verið í fyrsta sæti öll fimm árin sem þeir hafa verið í mælingunni.
Á heimasíðu HS segir að starfsmenn og stjórnendur Hitaveitu Suðurnesja hf. séu að vonum ánægðir með þá viðurkenningu sem viðskiptavinir fyrirtækisins hafa fært þeim enn og aftur og þakka kærlega fyrir. Það er von þeirra að geta áfram þjónustað viðskiptavini fyrirtækisins á ánægjulegan og skilvirkan hátt um ókomna tíð.
Hitaveita Suðurnesja hf hlaut alls 71,3 stig út úr könnuninni sem er sama einkun og árið 2005 en Norðurorka kom þar á eftir með 69,9 stig. Norðurorka er að taka þátt í könnuninni í fyrsta sinn. SPRON hlaut mesta ánægju viðskiptavina af þeim sem tóku þátt í könnuninni með 75,1 stig.
Á www.hs.is er eftirfarandi umsögn um Íslensku ánægjuvogina:
Íslenska ánægjuvogin er félag, sem Samtök iðnaðarins, Stjórnvísi og Capacent Gallup standa að hvað varðar þátttöku í Evrópsku ánægjuvoginni. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig nokkrum öðrum þáttum, sem hafa áhrif á hana, s.s. ímynd, mat á gæðum, og tryggð viðskiptavina. Mælingin er talin mjög mikilvæg þar sem rannsóknir hafa leitt í ljós að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu getur það get sér vonir um.
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir hjá CapaCent Gallup kynnti niðurstöðurnar og sagði m.a. að mikil fylgni væri milli ánægju og tryggðar viðskiptavina og að tengsl tryggðar og afkomu fyrirtækis væru mjög sterk. Því væri til mikils að vinna að hafa viðskiptavini ánægða.
Í flokki fjármálafyrirtækja, þ.e. banka og sparisjóða, er SPRON í fyrsta sæti með 75,1 stig en undanfarin 7 ár hefur Sparisjóðurinn verið í fyrsta sæti. Á árunum 1999 - 2003 var ekki gerður greinarmunur á SPRON og Sparisjóðnum þannig að þetta er þriðja árið sem SPRON er mældur sérstaklega. SPRON hækkaði um 1,0 stig milli ára en meðaltal banka/sparisjóða lækkar um 1,1 stig.
Í flokki tryggingafyrirtækja er Tryggingamiðstöðin í fyrsta sæti, annað árið í röð, með 71,9 stig og hækkar um 0,4 stig á milli ára.
Í flokki farsímafyrirtækja er Vodafone í fyrsta sæti með 64,5 stig.
Í flokki netveitna sem nú voru mældar í fyrst skipti er Hive í fyrsta sæti með 68,5 stig.
Í flokki gosdrykkjaframleiðenda er Ölgerðin Egill Skallagrímsson í fyrsta sæti með 72,2 stig en lækkar nokkuð eða um 3,9 stig milli ára.
Í flokki rafveitna, er Hitaveita Suðurnesja í fyrsta sæti fimmta árið í röð með 71,3 stig með nákvæmlega sömu einkunn og árið 2005.
Í flokki smásölufyrirtækja, þ.e. ÁTVR, olíufélaga og byggingavöruverslana, er BYKO í fyrsta sæti með 66,9 og veltir þar með ÁTVR úr sessi.
Mynd frá afhendingunni. Júlíus Jónsson tók við viðurkenningunni fyrir hönd Hitaveitunnar.