Íslandsstofa kynnir kvikmyndaverið að Ásbrú fyrir erlendum kvikmyndagerðarmönnum
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Íslandsstofa undirrituðu nýverið samning um erlenda markaðssetningu á kvikmyndaverinu Atlantic Studios, sem er í eigu Þróunarfélagsins, og fasteignum þess; staðsettum á Ásbrú í Reykjanesbæ. Samstarfið felur í sér að Film in Iceland sér um að kynna kvikmyndaverið Atlantic Studios á Ásbrú, í útlöndum, til þess að laða að erlenda aðila sem gætu notað aðstöðuna.
Aðstaða kvikmyndagerðarmanna og auglýsingaframleiðenda til upptöku á Ásbrú er sérlega glæsileg. Á Ásbrú er til staðar: 2.200 fermetra upptökusalur með 13 metra lofthæð, 480 sæta bíósalur, sundlaug fyrir upptökur í vatni, íþróttamiðstöð, veislusalur í 50‘s stíl (Officeraklúbburinn) og margt fleira.
Samningurinn fellur undir eitt þeirra átaksverkefna sem ríkisstjórn Íslands samþykkti að ráðast í á fundi sínum í Reykjanesbæ í nóvember síðastliðnum til að bregðast við erfiðu ástandi á Suðurnesjunum.
Áhugasamir um leigu fasteigna á Ásbrú undir kvikmyndaverkefni geta haft samband við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar í síma 425-2100 eða [email protected]
Kadeco er þróunarfélag sérhæft í fasteignaþróun, eflingu samkeppnishæfni Reykjaness og eflingu frumkvöðlamenningar á Reykjanesi. Frá árinu 2006 hefur Kadeco unnið að uppbyggingu á Ásbrú, samfélagi frumkvöðla, fræða og atvinnulífs þar sem áður var varnarstöð Nató.
Film in Iceland er rekið af Íslandsstofu sem upplýsingagjafi fyrir erlenda kvikmyndagerðamenn og veitir upplýsingar og ráðgjöf um viðskiptaumhverfi, möguleika og tengiliði fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað. Aðaláhersla Film in Iceland er á að kynna Ísland fyrir kvikmyndagerðar-mönnum sem áhugaverðan og hagkvæman tökustað fyrir ýmis verkefni.
Efsta mynd: Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdarstjóri Kadeco og Þórður H. Hilmarsson forstöðumaður hjá Íslandsstofu skrifa undir samninginn