Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Isavia kynnir forval vegna aðstöðu í flugstöðinni
Þriðjudagur 18. mars 2014 kl. 17:55

Isavia kynnir forval vegna aðstöðu í flugstöðinni

Isavia efnir til kynningarfundar á forvali vegna aðstöðu til verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Hörpu á morgun, miðvikudaginn 19. mars kl. 15.

Nýr samningstími rekstraraðila
Samningstími rekstraraðila í brottfarasal flugstöðvarinnar rennur út í árslok og hefur stjórn Isavia ákveðið að efna til nýs forvals á verslunar- og veitingarekstri.  Um leið verður ráðist í breytingar á brottfararsal flugstöðvarinnar og þjónustan endurskipulögð.  Áætlað er að endurskipan ljúki vorið 2015.

Ný tækifæri með breyttri samsetningu farþega
Farþegaflóran á Keflavíkurflugvelli er að breytast með mikilli aukningu erlendra farþega. Íslendingar voru helstu viðskiptavinir verslana og þjónustufyrirtækja en hlutfallið hefur breyst með fjölgun erlendra ferðamanna. Erlendir farþegar voru 68% af heildarfjölda árið 2013 og er áætlað að hlutfallið aukist í um 75% árið 2020. Breytingin mun hafa mikil áhrif á tilhögun og vöruframboð í verslunum og veitingasölu.
 
Farþegafjöldi hefur líka vaxið hröðum skrefum að undanförnu og lögðu 2,8 milljónir farþega leið sína um flugvöllinn á síðasta ári, 15,6% fleiri en árið 2012 og spáð er 18% fjölgun á yfirstandandi ári Þá er áætlað að heildarfjöldi farþega verði orðinn rúmar 5 milljónir árið 2020.

Samstarf við alþjóðlega sérfræðinga
Isavia leitaði aðstoðar breska ráðgjafarfyrirtækisins Concession Planning sem er eitt virtasta fyrirtækið á sviði reksturs og skipulagningar smásölu á flugvöllum. Ráða hefur einnig verið leitað hjá breska hönnunarfyrirtækinu Portland um hönnun á útliti og þema nýja verslunarsvæðisins. Fyrirtækið er margverðlaunað fyrir verkefni á sviði smásölu og í ferðaiðnaði og hefur 20 ára reynslu af margskonar þjónustu við verslunarrekstur á flugvöllum.

Sérstaða landsins í fyrirrúmi
Framboð verslana- og veitinga hefur mikil áhrif á ánægju farþega og heildarupplifun af flugvellinum.  Endurhönnun brottfarasvæðisins mun taka mið af því að hlutfall erlendra ferðamanna er að aukast mikið.  Íslensk náttúra og menning verða í forgrunni til að gera ferð farþega eftirminnilega og öðruvísi en á öðrum flugvöllum.

Nær eingöngu til sérverslana
Forvalið nær eingöngu til sérverslana og veitingastaða en ekki vöruflokka Fríhafnarinnar sem áfram mun hafa með höndum sölu á hefðbundnum tollfrjálsum varningi á borð við áfengi, tóbak, sælgæti, ilm- og snyrtivörur og skyldar vörur. Sérverslanir munu annast sölu annarra vöruflokka í einstökum verslunareiningum eða stærri deildarskiptum einingum með „búð í búð“ tilhögun. Flæði farþega um brottfarasalinn verður breytt þannig að allir farþegar ganga í gegnum Fríhafnarverslunina og þaðan er síðan eitt flæði í gegnum salinn þar sem gestir geta notið þess að versla og neyta veitinga áður en haldið er út í heim.

Mikill áhugi
Forvalið hefur vakið mikla athygli og fjölmargir innlendir og erlendir rekstraraðilar hafa lýst áhuga á þátttöku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024