Íris gæðastjóri hjá Skólamat
Íris Jónsdóttir Thordersen hefur verið ráðin sem gæðastjóri Skólamatar. Hlutverk gæðastjóra er að sjá um að innleiða, þróa og viðhalda gæðakerfi ásamt gæðahandbók. Markmið gæðastjóra er að halda uppi gæðum og tryggja öryggi viðskiptavina og starfsfólks.
„Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum hjá Skólamat en fyrirtækið hefur stækkað hratt síðustu ár. Ég finn að það er mikil metnaður í fyrirtækinu og ég hlakka til að takast á við áskoranirnar sem við í Skólamat stöndum frammi fyrir,“ segir Íris.
Íris er 41 árs Njarðvíkingur, en hún er með B.Sc í næringarfræði og M.Sc í matvælafræði frá Háskóla Íslands. Hún er í sambúð með Helga Má Helgasyni lyfjafræðingi í Reykjanesapóteki og eiga þau börnin Heimi, Elísu, Stefán Óla og Svandísi. Áður starfaði Íris sem matvælafræðingur hjá Taramar árin 2022-2023 og sem flugfreyja hjá Icelandair árin 2007-2021.
„Við erum mjög ánægð að fá Írisi til liðs við okkur en við teljum að hún passi einstaklega vel inn í Skólamatarfjölskylduna okkar. Við erum viss um að Íris eigi eftir reynast okkur vel í því sem framundan er,“ segir Fanný Axelsdóttir, mannauðsstjóri Skólamatar.
Skólamatur er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu og framreiðslu á máltíðum í leik- og grunnskólum. Skólamatur þjónustar um 15.000 nemendur á degi hverjum í rúmlega 85 mötuneytum á suðvesturhorni landsins. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 170 starfsmenn.