Icewear /Víkurprjón opnar saumastofu á Suðurnesjum
Saumastofa Icewear/Víkurprjóns í Reykjanesbæ hefur hafið starfsemi. Saumastofan hefur aðsetur að Flugvallarvegi 740, Ásbrú í Reykjanesbæ. Auglýst var eftir starfsfólki í Víkurfréttum 10. maí síðastliðinn. Mikill fjöldi sótti um þau 10 störf sem auglýst voru og hefur verið ráðið í öll störfin.
Í kjölfar yfirtöku Icewear á Víkurprjóni fyrr á árinu var ákveðið að stórauka framleiðslu á prjónavörum í Vík í Mýrdal. Þar sem saumageta er takmörkuð þar var ákveðið að opna saumastofu á Suðurnesjum. Á Icewear-saumastofunni í Reykjanesbæ verður lögð áhersla á að framleiða nærföt úr angóruull ásamt því að framleiða ýmiskonar vörur úr íslenskri ull. Nærfatalínan mun heita „Reykjanes“.
Icewear bindur miklar vonir við að byggja upp öfluga saumastofu á Reykjanesi, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.