Icelandair bætir við tveimur vélum
Icelandair ætlar að bæta við tveimur vélum í flugvélaflotann sinn og verða með sextán vélar í rekstri næsta sumar, en voru með fjórtán síðasta sumar. Frá þessu er greint á visir.is.
Gengið hefur verið frá samningum um tvær Boeing 757-200 vélar sem munu bætast við flota Icelandair á næstu mánuðum. Annars vegar er um að ræða kaup á vél og hins vegar leigu á vél til 20 mánaða. Kaupin eru fjármögnuð úr sjóðum félagsins, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Icelandair. Kaupverðið er trúnaðarmál.
Báðar vélarnar eru á leið í hefðbundið innleiðingarferli Icelandair til að uppfylla staðla félagsins fyrir notkun. Gert er ráð fyrir að báðar vélarnar verði tilbúnar til notkunar í leiðarkerfi félagsins í maí næstkomandi.