Iceland Express hefur aftur flug til Bandaríkjanna
Áfangastöðum í Evrópu fækkað og tíðni aukin – Sætaframboð aukið um 30 prósent milli ára
Iceland Express mun hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna á nýjan leik næsta sumar. Flogið verður daglega til Boston í Massachusetts frá byrjun júní. Áfangastöðum í Evrópu verður fækkað um sex en um leið verður tíðni aukin á þá staði sem flogið verður á miðað við það sem áður var. Nýir áfangastaðir í Evrópu verða Osló höfuðborg Noregs og Frankfurt-Main í Þýskalandi.
„Iceland Express kemur nú aftur inn á ameríkumarkaðinn þar sem einokun hefur ríkt lengst af. Með samkeppni mun verð lækka til hagsbóta fyrir farþega. Auk flugs vestur um haf og aukinni tíðni á flesta áfangastaði okkar í Evrópu erum við að auka sætaframboðið úr 370 þúsund sætum í 480 þúsund sæti eða um 30%,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson forstjóri Iceland Express. Búið sé að straumlínulaga áætlun félagsins sem verði bæði sterk og skýr.
London og Kaupmannahöfn hafa allt frá stofnun félagsins verið megináfangastaðir Iceland Express og verður svo áfram. Flogið verður daglega til þessara staða og suma dagana tvisvar. Auk fyrrgreindra staða verður flogið til Parísar, Berlínar, Barcelona, Alicante og Varsjár.
Með aukinni tíðni til flestra áfangastaða sem og flugi til Bandaríkjanna er Iceland Express að auka þjónustu við farþega sína. Með þessum áherslubreytingum verður Ísland einnig álitlegri kostur fyrir erlenda ferðamenn á þeim svæðum sem flogið verður til.
Iceland Express kemur aftur inn á Bandaríkjamarkað en þegar félagið flaug þangað á árunum 2010 og 2011 lækkaði verðið fyrir flug vestur um haf umtalsvert. Mjög mikilvægt er að samkeppni ríki í flugi milli Íslands og Bandaríkjanna íslenskum og erlendum ferðamönnum til hagsbóta og til að auka enn frekar ferðamannastrauminn þaðan.
Holidays Czech Airlines mun halda áfram að þjóna Iceland Express enda hefur samstarf félaganna reynst báðum aðilum heilladrjúgt.