Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Húsasmiðjan og Blómaval opna á Fitjum
Mánudagur 31. mars 2008 kl. 15:12

Húsasmiðjan og Blómaval opna á Fitjum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Húsamiðjan og Blómaval hafa opnað verslanir sínar í nýju húsnæði í verslunarkjarnanum að Fitjum í Reykjanesbæ. Formleg opnun verður nk. föstudag, 4. apríl.

Nýja verslunarhúsið er samtals um 3.000 fermetrar að stærð en það hýsir einnig Ískraft ehf., dótturfyrirtæki Húsasmiðjunnar, sem selur fagmönnum raflagnaefni. Nýja verslunarhúsnæðið er sérhannað fyrir starfsemi Húsasmiðjunnar og Blómavals. Í fréttatilkynningu segir að við hönnunina hafi ekki síður verið tekið mið af þörfum viðskiptavina þannig að innkaup þeirra verði bæði þægileg og ánægjuleg.




Steinn Logi Björnsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, segir í tilkynningunni að opnun hinnar nýju verslunar í Reykjanesbæ beri vott um þann mikla þrótt sem einkennir starfsemi fyrirtækisins. „Húsasmiðjan hefur opnað margar nýjar og endurnýjaðar verslanir síðustu misseri þar sem leitast er við að koma betur til móts við þarfir viðskiptavina. Hin nýja og glæsilega verslun í Reykjanesbæ mun þjóna öllum Suðurnesjum og Vogunum og verða kjölfesta í framkvæmdagleði heimamanna. Þá mun hún styrkja enn stöðu Reykjanesbæjar sem miðstöðvar verslunar og þjónustu á Suðurnesjum.“

 


Húsasmiðjan hefur verið með starfsemi í Reykjanesbæ frá því í nóvember 1996, en húsnæðið að Iðavöllum þótti ekki hentar lengur fyrir nútímaverslunarrekstur. Árni Júlíusson, rekstrarstjóri Húsamiðjunnar í Reykjanesbæ, segir alla aðstöðu í nýju versluninni vera fyrsta flokks enda húsnæðið hannað með þarfir Húsasmiðjunnar og Blómvals í huga. „Ég á ekki von á öðru en að nýja verslunin falli vel í kramið hjá Suðurnesjamönnum en hún er staðsett í miðbæ Reykjanesbæjar. Við erum mjög ánægð með þessar breytingar og hlökkum til að hefja störf í nýrri verslun.“

 

Í tilefni opnunarinnar verður efnt til fjölskylduhátíðar dagana 4.-6. apríl þar sem íbúar Reykjanesbæjar og nágrennis geta kynnt sér fjölbreytt vöruúrval verslananna og undirbúið sig fyrir vorkomuna.