Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

HS Orka opnar skrifstofu í Reykjanesbæ
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, og Brynjar Steinarsson, framkvæmdastjóri KSK, undirrituðu leigusamninginn. Með þeim eru starfsmenn frá HS Orku og Karl Jónsson, lögmaður. VF/pket
Laugardagur 2. mars 2024 kl. 09:39

HS Orka opnar skrifstofu í Reykjanesbæ

HS Orka hefur opnað skrifstofu í Krossmóa í Reykjanesbæ. Þar munu tólf til fimmtán starfsmenn fyrirtækisins verða staðsettir að staðaldri en aðrar starfsstöðvar fyrirtækisins verða eftir sem áður í Svartsengi, Reykjanesvirkjun og í Turninum í Kópavogi.

Samhliða flutningum í Krossmóa hefur aðstaða fyrirtækisins í Turninum í Kópavogi verið stækkuð til að rúma betur annað starfsfólk sem áður hafði aðsetur í Svartsengi. Flutningarnir koma í kjölfar þess að ekki er talið óhætt að flytja alla starfsemi fyrirtækisins í bráð í höfuðstöðvar þess í Svartsengi eftir umbrot síðustu fjögurra mánaða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vinnustaður á hrakhólum

Starfsemin í Krossmóa hafði áður fast aðsetur í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Svartsengi en jarðhræringar og eldsumbrot síðustu mánaða valda því að óvíst er hvort og þá hvenær hægt verður að snúa þangað á nýjan leik. Í dag er lágmarksmannskapur þar við störf, einkum við rekstur orkuversins, en fyrir náttúruhamfarirnar í nóvember höfðu nær allir 90  starfsmenn HS Orku starfsaðstöðu í Svartsengi.

Skrifstofurnar nýju eru á annari hæð í Krossmóa. Þær eru rúmgóðar og bjartar en þar verða tólf fastar starfsstöðvar auk þess sem nokkur dagborð verða aðgengileg fyrir annað starfsfólk fyrirtækisins. Einnig er í húsnæðinu góð aðstaða til fundahalda.

Hornsteinn í héraði

Gaman er að geta þess að HS Orka hefur nú komið sér fyrir á svipuðum slóðum þar sem samningar voru gerðir við landeigendur á frægum hitafundi fyrir rétt um 50 árum. Sá fundur lagði grunninn að Hitaveitu Suðurnesja en fundurinn stóð langt fram eftir nóttu og var einmitt haldinn steinsnar frá Krossmóa, í Iðnskóla Suðurnesja þar sem Fjölbrautarskóli Suðurnesja stendur nú. Hitaveita Suðurnesja var stofnuð 31. desember árið 1974 sem sannkallaður hornsteinn í héraði og fagna fyrirtækin tvö sem byggja á þeim grunni, HS Orka og HS Veitur,  því hálfrar aldar afmæli í árslok.