Hjá Höllu verður fyrsta Geopark fyrirtækið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Veitingastaðurinn Hjá Höllu er fyrstur aðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að hljóta nafnbótina Geopark fyrirtæki en Hjá Höllu og Reykjanes Geopark gerðu með sér samkomulag þess eðlis á dögunum. Þau Helga Dís Jakobsdóttir rekstrarstjóri Hjá Höllu í Leifsstöð og Daníel Einarsson forstöðumaður Reykjaness Geopark handsöluðu samstarfið á nýjum og glæsilegum stað Höllu í Leifstöð.
Með samstarfinu er m.a. stuðlað að því að fyrirtæki á svæðinu noti merki Reykjanes UNESCO Global Geopark sem upprunamerkingu og styrki þannig við ferðaþjónustu og framleiðslu á Reykjanesskaga.
VisitReykjanes greinir frá þessu.
„Við leitumst við að nota hráefni úr héraði og reynum eftir fremsta megni að miðla sögu okkar og svæðisins í gegnum okkar starfsemi. Halla notast t.d. við uppskriftir frá ömmu sinni og starfsfólk tekur virkan þátt í því að móta vörur sem við bjóðum upp á. Fyrirtækið byggist á heimafólki og fyrir vikið myndast ákveðinn andi sem okkur finnst mikilvægt að viðhalda og skilar sér vonandi áfram til viðskiptavina okkar. Markmið Reykjanes Geopark spegla okkar markmið og því erum við mjög ánægð að leggja okkar af mörkum til þess að halda merki Reykjaness á lofti með þessum hætti,“ sagði Helga Dís um samstarfið.
Tæplega 30 manns starfa á veitingastöðum Hjá Höllu í Grindavík og í Leifsstöð en fyrirtækið hefur vaxið og dafnað á þeim rúmu fimm árum sem það hefur verið starfandi hér á Reykjanesi. Hjá Höllu býður upp á eldbakaðar súrdeigspítsur, ferskan fisk frá Grindavík, fersk salöt sem og úrval rétta til að taka með sér í flug. Búið er að koma fyrir stórum gaseldofni þar sem pítsurnar eru bakaðar við háan hita á aðeins 90 sekúndum.
Reykjanes Geopark vinnur að því að kveikja áhuga íbúa og gesta á Jörðinni, m.a. með því að vekja athygli á áhugaverðri jarðsögu, fræða og annast landið. Hugtakið Geopark er skilgreint af alþjóðlegum samtökum Geoparka sem nefnast Global Geoparks Network og starfa þau undir verndarvæng UNESCO.
„Það er mikið ánægjuefni að veitingastaðurinn Hjá Höllu sé fyrsta skráða Geopark fyrirtækið í Leifsstöð, það eykur sýnileika jarðvangsins og vonandi verður Reykjanes Geopark sýnilegri í Leifsstöð í framtíðinni enda er hann eini alþjóðaflugvöllurinn sem staðsettur í jarðvangi,“ sagði Daníel Einarsson frá Reykjanes Geopark við þetta tækifæri.