Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrita orkusamning vegna álvers í Helguvík
Mánudagur 23. apríl 2007 kl. 19:18

Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrita orkusamning vegna álvers í Helguvík

Norðurál og Hitaveita Suðurnesja undirrituðu í dag samning um orkusölu til fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Samkvæmt samningnum mun HS útvega Norðuráli raforku fyrir álverið í Helguvík, þar á meðal allt að 150 MW fyrir fyrsta áfanga álversins sem  miðast við 150.000 tonna ársframleiðslu.

Reykjanesbær, Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrituðu á vormánuðum 2005 samstarfssamning um könnun á möguleikum þess að álver yrði reist. Strax í kjölfarið var farið af stað með frekari könnun á orkuöflun, umhverfisskilyrðum, hafnaraðstæðum, staðsetningu og öðrum þáttum. Í júní sl. undirrituðu Norðurál, Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur viljayfirlýsingu um raforkusölu til fyrirhugaðs álvers í Helguvík.

Unnið hefur verið markvisst að undirbúningi og gangi allt samkvæmt áætlun er áformað að jarðvegsframkvæmdir hefjist í lok árs 2007 og að fyrsta afhending orku til álvinnslu verði árið 2010.

Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir að hlutverk Hitaveitunnar sé að tryggja fyrir sitt leyti næga orkuöflun fyrir fyrirhugað álver í Helguvík. “Það er ánægjuefni að þessi samningur skuli vera í höfn. Við höfum mjög góða reynslu af samstarfi við Norðurál og lítum á þetta verkefni sem tækifæri til arðbærrar virkjunar sem mun efla atvinnulífið hér syðra og stækka markaðssvæði okkar.”

Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og fjármálasviðs Norðuráls, segir undirritun orkusamningsins afar mikilvægan áfanga á leiðinni að fyrirhuguðu álveri í Helguvík. “Við stefnum að því að kynna mat á umhverfisáhrifum nú í maí. Starfsemi Norðuráls hefur frá upphafi verið byggð upp í hóflegum áföngum miðað við íslenskar aðstæður og íslenskt hagkerfi. Mikið hefur verið lagt upp úr að nýta íslenskt hugvit og íslenska þjónustuaðila svo sem verkfræðistofur, verktaka, flutningafyrirtæki og banka. Með þessu móti hefur starfsemi Norðuráls vaxið í sátt við samfélagið og markmiðið er að halda þeirri stefnu.”

“Við fögnum þessu samkomulagi,” segja þau Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Oddný Harðardóttir bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs. “Verkefnið er afar metnaðarfullt og þessi metnaður kemur fram hjá öllum sem að því standa. Aðilar hafa verið samstiga í því að sýna ýtrustu fagmennsku og vandvirkni í umhverfismálum. Það er líka ljóst að byggðarlögunum hér syðra yrði gríðarlegur akkur í verkefninu enda yrði hér mikil fjölgun í framboði á fjölþættum og vel launuðum störfum sem munu þá koma í stað þeirra 700 starfa sem glötuðust með brottför varnarliðsins á síðasta ári.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024