Heitur matur í hádeginu í Ship o Hoj
Ship o Hoj sælkeraverzlun mun frá og með nk. mánudegi bjóða upp á heitan bakkamat í hádeginu alla virka frá 11:30-14:00.
Matreiðslumeistarinn Gylfi Ingason hefur nýlega verið ráðin til starfa en með Gylfa kemur áratuga reynsla. Hann hefur m.a. unnið í rúm 20 ár við matreiðslu í fínustu veiðihúsum landsins en eins og margir vita eru kröfur á þeim bænum miklar. Gylfi hefur einnig unnið við sölu og framleiðslu á kjöt- og fiskafurðum til fjölda ára.
Í hádeginu verður boðið upp á humar- & fiskisúpu auk fisk- & kjötrétta. Gæðin verða í fyrirrúmi ásamt viðráðanlegu verði. Hráefnið kemur ferskt í hús, því verður um góðan heimilismat að ræða, segir í tilkynningu frá Ship o Hoj.
Auk þessa mun Ship o Hoj áfram bjóða upp glæsileg kjöt- og fiskborð ásamt öðrum spennandi afurðum s.s. eðalsíld frá Fáskrúðsfirði, humar frá Vestmannaeyjum, harðfisk frá Sandgerði, signum fisk frá Garði, sjófrystar lúðusteikur, góðar sósur og meðlæti og margt margt fleira.