Heilsudrykkur úr túrmerikrót framleiddur í Sandgerði
Fyrirtækið iSqueeze Ísland, sem er staðsett í Sandgerði, var stofnað árið 2014 og sérhæfir sig í að gefa íslenskum neytendum heilsudrykk sem inniheldur hina heilsusamlegu túrmerikrót. Elvar Guðmundsson er núverandi eigandi fyrirtækisins en hann keypti það árið 2015. „Það hafði lengi blundað í mér að eiga og reka mitt eigið fyrirtæki og mér fannst þetta mjög spennandi valkostur þegar mér bauðst að kaupa fyrirtækið árið 2015,“ segir Elvar en hann hefur lengi haft áhuga á öllu sem er heilsusamlegt enda með langan bakgrunn úr íþróttum og fannst túrmerikrótin því mjög áhugaverð.
Upphafið
Til að byrja með fór öll framleiðslan fram í Danmörku, í fyrirtæki sem heitir Tapperiet, rétt utan Kaupmannahafnar. Framleiðslan var því aðkeypt og ekki íslensk en uppskriftin og aðferðin þróuð af Elvari og fyrri eigendum iSqueeze Ísland.
Í byrjun 2017 vildi Elvar færa framleiðsluna til Íslands og samdi við lítið fyrirtæki í Hveragerði um að framleiða vöruna. Það samstarf entist ekki lengi vegna þess að það fyrirtæki hætti skyndilega án nokkurs fyrirvara og þurfti Elvar því að leita annað.
Nýtt húsnæði og nýir tímar
Í lok janúar 2018 staðfesti Elvar kaup á flottu 100 fermetra húsnæði í Sandgerði fyrir framleiðsluna. Síðustu mánuðir hafa farið í að koma verksmiðjunni í starfhæft ástand til að framleiða hina geysivinsælu og hollu túrmerikdrykki. Nú eru túrmerikdrykkirnir því framleiddir í eigin húsnæði og af Elvari sjálfum, sem getur verið erfitt en hann er í fullri vinnu og þarf því að eyða kvöldum og helgum í að framleiða drykkina og keyrir daglega frá Kópavogi en þar er hann búsettur. Þó að Elvar hafi ekkert starfsfólk þá hefur hann góða og trygga fjölskyldumeðlimi sem hjálpa honum mikið við framleiðsluna.
„Þær eru geggjaðar og gefandi stundirnar sem ég stend á verksmiðjugólfinu með foreldrum mínum og bróður að búa til þessa hollu drykki sem hjálpa svo mörgum þarna úti,“ en fyrirtækið hefur ávallt lagt áherslu á virkni í staðinn fyrir gott bragð.
Spurður um framtíðarsýn segir Elvar að ýmsar hugmyndir séu til staðar. „Nú er stefnan sett á eina nýja tegund af heilsudrykk fyrir lok þessa árs,“ en nú eru til tvær bragðtegundir; kanil- og kókosdrykkur. Grunnurinn er hinsvegar alltaf sá sami en allir drykkirnir innihalda túrmerik og engifer.
Elvar hefur líka áhuga á að framleiða fleiri vörutegundir í verksmiðjunni, eins og t.d. tilbúnar súpur. „Einnig er ég alltaf opinn fyrir framleiðslu fyrir aðra ef það hentar út frá núverandi vélum, tækjum og tólum.“
Áhrif drykkjanna
Meginvirkni drykkjanna tengist bólguminnkun en það er það sem túrmerikdrykkurinn gerir helst ásamt því að hreinsa líkamann, draga úr meltingarvandamálum og styrkja ónæmiskerfið svo að eitthvað sé nefnt. Best er að taka drykkinn sem skot á fastandi maga á morgnana.
„Ég heyri margar sögur frá mínum viðskiptavinum um hvað þessi drykkur gerir fyrir þá, og þá einna helst tengt mýkri liðum og betri líðan almennt. Þær sögur hvetja mig áfram í þessum rekstri enda mjög gefandi fyrir mig að hjálpa fólki hvað varðar heilsu þeirra og líðan,“ segir Elvar en drykkirnir hafa fengið mjög góða dóma frá viðskiptavinum og getur fólk nálgast þá í öllum Nettóbúðunum, Hagkaup, Fjarðarkaup, Melabúðinni og Iceland.
Alíslenskt fyrirtæki
Elvar er stoltur að segja frá því að hann sé með drykk í verslunum þar sem allt ferlið er íslenskt, allt frá innkaupum á hráefnum, framleiðslu á flöskum og dreifingu í búðir. „Þetta er allt íslenskt, flestar aðrar sambærilegar vörur eru framleiddar af erlendum fyrirtækjum.“