Harpa hf. kaupir Dropann í Keflavík
Málningarverksmiðjan Harpa hf. í Reykjavík hefur keypt verslunina Dropann í Keflavík af Kristni Guðmundssyni og fjölskyldu sem rekið hefur verslunina á fjórða áratug. Gengið var frá samningi milli aðila sl. föstudag og starfsfólki tilkynnt um þetta nú í byrjun vikunnar. Guðmundur Már Kristinsson, sem gengt hefur starfi verslunarstjóra hjá Dropanum undanfarin ár verður verslunarstjóri hjá nýjum eigendum. Allir aðrir starfsmenn Dropans hafa verið endurráðnir.Viðræður þróuðust í kaupHelgi Magnússon, framkvæmdastjóri Hörpu hf. sagði í samtali við Víkurfréttir að fyrirtækin hafi átt viðskipti sín í milli um áratuga skeið og menn hafi verið að ræða saman um aukin viðskipti, þegar sú hugmynd hafi m.a. komið upp að Harpa eignaðist hlut í fyrirtækinu, til að efla það frekar. Áframhaldandi viðræður hafi leitt til þeirrar nðurstöðu að Harpa keypti öll hlutabréfin ásamt því að ráða allt starfsfólk áfram og að Guðmundur Már stýrði versluninni. „Dropinn nýtur vinsælda og álits á Suðurnesjum og Kristinn og hans fólk er þekkt fyrir fagmennsku. Við viljum halda í þetta og gerum ekki miklar breytingar á fyrirtækinu. Viðskiptavinir munu ganga að sömu góðu þjónustunni áfram og það sem kann að breytast verður einungis til að styrkja verslunina Dropann“, sagði Helgi Magnússon og bætti því við að kaup fyrirtækisins á Dropanum væru í rökréttu framhaldi af þeirri stefnu sem mörkuð var í fyrra þegar fyrirtækið fór út í rekstur þriggja Hörpuverslana á höfuðborgarsvæðinu en þeim hefur verið mjög vel tekið og njóta vinsælda hjá almenningi og fagmönnum.Helgi segir að vöruframboð Dropans væri talsvert breiðara en í verslunum þeirra á höfuðborgarsvæðinu en málningardeildin væri mjög mikilvæg og umsvifamikil. „Höfuðáherslan verður lögð á faglega ráðgjöf og vönduð vinnubrögð eins og í öðrum verslunum okkar“, sagði Helgi en fyrirtækið framleiðir eða flytur inn allt sem þarf til málunar, innanhúss og utan.Vildum sterkan bakhjarlGuðmundur Már Kristinsson er sonur hjónanna Kristins og Jónu Gunnarsdóttur og hefur verið við stjórnvölinn í Dropanum undanfarin ár en foreldrar hans opnuðu fyrst málningarvöruverslun við Hafnargötu 19 í Keflavík fyrir 35 árum síðan. Guðmundur Már segir að samkeppnin hafi verið að aukast mikið á síðustu árum og verslunin verið að færast í hendur stærri aðila. „Okkur var engin launung á því að við vildum fá öflugt fyrirtæki í lið með okkur til að efla Dropann til frekari dáða. Viðræður okkar við eigendur Hörpu þróuðust þannig að báðir aðilar sáu sér hag í því að fara þá leið sem varð fyrir valinu. Ég mun sjá um daglegan rekstur og mun njóta stuðnings Hörpumanna sem ég tel að sé mjög mikils verður. Við erum með margar spennandi hugmyndir sem ætlunin er að hrinda í framkvæmd. Ég er sannfærður um að markaðurinn hér mun njóta góðs af þessari breytingu“. Guðmundur Már sagði að fjölskyldan væri að skipta um gír, „en við munum áfram njóta reynslu föður míns við reksturinn en hann hefur sinnt þessum störfum í 35 ár“.Ljóst er að Harpa mun koma sterk inn á Suðurnesjamarkaðinn með kaupunum á Dropanum sem velti um 120 milljónum kr. á síðasta ári.