Hagnaður HS Orku 2,5 milljarðar
Heildarhagnaður HS Orku á fyrstu níu mánuðum ársins var 2.501 milljón samanborið við hagnað upp á 172 milljónir á sama tímabili árið 2015. Þetta kemur fram í árshlutareikningi sem birtur er á vef HS Orku.
Hagnaður tímabilsins nam 2.714 milljónum en á sama tímabili 2015 var hagnaður af rekstri 290 milljónir. Rekstrartekjur námu 5.119 milljónum en voru fyrir sama tímabil í fyrra 5.382 milljónir. Á vef HS Orku kemur fram að helsta skýring á lækkun rekstrartekna sé minni framleiðsla og minni sala rafmagns til fiskimjölsverksmiðja vegna lakrar loðnuvertíðar.
Eiginfjárhlutfall 30. september 2016 var 65,7 prósent en var í árslok 2015 58,6 prósent.