Hagnaður Bláa lónsins 2,3 milljarðar
- Greiða 1,4 milljarð í arð til hluthafa
Tekjur Bláa lónsins á síðasta ári voru 7,9 milljarðar króna og hagnaður eftir skatta 2,3 milljarðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu frá Bláa lóninu hf. en aðalfundur var haldinn 25. maí síðastliðinn. Á fundinum var samþykkt að greiða um 1,4 milljarð í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Bláa lónsins hf. var 52 prósent um síðustu áramót og er áætlað að fyrirtækið greiði 332 milljónir króna, nettó, í virðisaukaskatt til ríkissjóðs á þessu ári.
Að sögn Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins hf., hefur vöxtur Bláa lónsins verið í takt við þróun ferðaþjónustunnar sem afli meiri gjaldeyristekna hér á landi en nokkur önnur atvinnugrein. Heimsóknir í Bláa lónið á síðasta ári voru 919.000 og hafa aldrei verið fleiri. Nú í sumar munu yfir 500 manns starfa hjá Bláa lóninu hf.