Hagnaður 1,289 milljónir fyrir skatta
Hagnaður Bakkavör Group hf. fyrir skatta en með óreglulegum liðum á fyrri hluta ársins 2003 nam 1,289 milljónum króna. Þetta kemur fram á vefsíðu Kauphallar Íslands. Hagnaður af reglulegri starfsemi félagsins fyrir skatta nam 894 milljónum króna og jókst um 5% frá fyrra ári. Rekstrartekjur félagsins námu 9,032 milljónum króna og jukust um 15% frá árinu áður. Á fyrri hluta ársins seldi Bakkavör Group alla starfsemi sína utan Bretlands til Fram Foods hf. en sú starfsemi myndaði sjávarútvegskjarna félagsins. Rekstur Bakkavör Group fer nú eingöngu fram í Bretlandi þar sem félagið rekur tvö dótturfélög, Katsouris Fresh Foods í London og Bakkavör Birmingham í Birmingham. Sala félagsins í Bretlandi á fyrri hluta ársins nam 7,619 milljónum króna og jókst um 22% frá fyrra ári en salan í sjávarútvegshluta félagsins nam 1,412 milljónum króna og dróst saman um 6% frá fyrra ári.