Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Grindvíkingar fulltrúar Suðurnesja á sjávarútvegssýningunni
Jón Gauti Dagbjartsson og Karen Lilja Hafsteinsdóttir hafa ekki áhyggjur af rafmagnsvæðingunni í bílaflotanum.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 28. september 2024 kl. 06:17

Grindvíkingar fulltrúar Suðurnesja á sjávarútvegssýningunni

Það var margt um manninn í Smáranum í síðustu viku þegar Íslenska sjávarútvegssýningin, Icefish, var haldin. Sýningin í ár var sú fjórtánda í röðinni en hún hóf göngu sína árið 1984 og fagnaði því 40 ára afmæli í ár.

Þeir sem tengjast sjávarútvegi á einhvern máta vilja ekki láta sýninguna fram hjá sér fara en á henni má finna allt það nýjasta í tækjum, búnaði og þjónustu við sjávarútveginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Segja má að Grindvíkingar hafi verið fulltrúar Suðurnesja á sýningunni og var einn bás merktur Grindavík og nokkur grindvísk fyrirtæki þar að kynna sína þjónustu.

Mustad autoline var eitt þessara grindvísku fyrirtækja en eigandinn, Sigurður Óli Þórleifsson, er einmitt sonur stofnanda Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, Þórleifs Ólafssonar.

Sigurður Óli Þórleifsson hjá Mustad Autoline.

Þessar sýningar mikilvægar

„Ég hef verið með í einhverri mynd síðan pabbi stofnaði sýninguna árið 1984. Þessar sýningar eru mikilvægar að mínu mati til að viðhalda viðskiptasamböndum og búa til ný. Það sem er kannski öðruvísi núna er að Grindavík er sameiginlega með bás og níu grindvísk fyrirtæki saman þar undir, ekki síst til að búa til samverustað fyrir Grindvíkinga. Ég held að mér sé óhætt að segja að þetta hafi lukkast vel, mjög margir Grindvíkingar kíktu við hjá okkur og það var gaman að hitta fólkið sitt. Það er mikill fjöldi fólks sem rennir í gegn á þessum dögum og maður hittir flesta af sínum viðskiptavinum og vonandi að nýir bætist í hópinn.

Það sem er nýtt hjá Mustad eru svokölluð pulsubeita, hún hefur virkað vel á ýsu og nýlega prófuðum við loðnupulsu, hún kom mjög vel út á steinbítsveiðum fyrir vestan svo ég bind miklar vonir við þessa nýjung á komandi vertíð,“ sagði Sigurður að lokum.

Alþingismaðurinn Ásmundur Friðriksson lætur sig ekki vanta á svona samkomur.

„Það er alltaf gaman að koma á þessa sýningu, ég hitti hér gamla félaga úr sjávarútveginum, gamla skipstjóra m.a. og sömuleiðis hitti ég útgerðarmenn og ég lít á þetta sem hluta af mínu starfi, að hitta fólkið í landinu og hér hittir maður marga. Það er gaman að sjá framþróunina í sjávarútveginum, sumt sem mann hefði aldrei dreymt um að myndi gerast er orðið að veruleika í dag, maður spyr sig hvar þessi tækni muni enda,“ sagði Ási.

Páll Valur Björnsson frá Fisktækniskólanum.

Fisktækniskólinn sýnir sig og sér aðra

Fisktækniskóli Íslands er rúmlega tíu ára gamall og hefur alltaf tekið þátt. Páll Valur Björnsson er einn kennara skólans.

„Þetta er auðvitað fyrst og síðast kynningarstarfsemi sem fer hér fram. Við erum alltaf með bás en svo kíkjum við líka á hina básana og sem umsjónarmaður grunnáms fæ ég nafnspjöld hjá öllum þessum fyrirtækjum og kem svo í heimsókn með nemendur mína í þessi fyrirtæki. Þetta hefur skilað góðum árangri hingað til og við munum halda áfram að taka þátt í þessari sýningu,“ sagði Páll Valur.

Fyrirtækið Klaki á sér 52 ára sögu, Grindvíkingurinn Óskar Pétursson hefur verið meðal eigenda að undanförnu.

„Klaki hefur alltaf starfað í kringum sjávarútveginn, við framleiðum færibönd, vinnslulínur, róbótakerfi og ótal margt fleira en mikil þróunarvinna hefur átt sér stað á undanförnum árum. Þessi þróunarvinna hefur greinilega skilað sér því við fengum verðlaun í flokki minni fyrirtækja á sjávarútvegssýningunni, ég er mjög stoltur af þessari viðurkenningu. Þessi sýning er mikilvæg fyrir okkur, bæði hittum við núverandi viðskiptavini og stofnum til nýrra sambanda, við munum held ég alltaf vera með,“ sagði Óskar.

Olís er vinur við veginn, Jón Gauti Dagbjartsson og Karen Lilja Hafsteinsdóttir hafa ekki áhyggjur af rafmagnsvæðingunni í bílaflotanum.

„Það felast tækifæri í rafmagnsvæðingunni, Olís er fyrirtæki sem er í stakk búið til að takast á við slíkar áskoranir. Olía og Bensín munu líklega aldrei hætta sem orkugjafar en stór hluti rekstrar Olís er í kringum sjávarútveginn og þess vegna er Olís alltaf með bás á sjávarútvegssýningunni. Olís er með mjög fjölbreyttar lausnir í alls kyns rekstrarvörum og við kappkostum að þjónusta sjávarútveginn vel,“ sögðu vinirnir.

Eyþór Reynisson hjá TG RAF.

TG RAF þjónustar sjávarútveginn

TG RAF var með bækistöðvar sínar í Grindavík en var á á leiðinni með að opna útibú í Hafnarfirði þegar ósköpin dundu yfir í Grindavík fyrir tæpu ári síðan.

„Við vorum langt komin með að opna útibú í Hafnarfirði svo hamfarnirnar höfðu ekki svo mikil áhrif á okkar starfsemi. Við vorum nokkrir sem höfum verið að vinna í Grindavík meira og minna síðan 10. nóvember í ýmsum verkefnum fyrir Almannavarnir en stór starfsemi TG RAF hefur alltaf verið í kringum sjávarútveginn og sú vinna hætti ekkert þótt allir þyrftu að flýja Grindavík, skipin komu bara annars staðar í land, segir Eyþór Reynisson, sviðsstjóri TG RAF.

Hermann Ólafsson í Stakkavík.

Útgerðarmenn láta sjá sig

Útgerðarmenn láta flestir sjá sig á sýningunni, Hermann Ólafsson rekur eina stærstu smábátaútgerð Íslands, Stakkavík.

„Ég reyni alltaf að koma á þessa sýningu. Maður hittir mjög marga og ég á viðskipti við mjög marga af þessum aðilum, hef keypt báta, vélar, línu og í raun allt sem snýr að sjávarútvegnum.

Staða Stakkavíkur er þannig að húsnæðið er ónýtt og við erum byrjaðir á flutningi á tækjum og tólum yfir í Mölvík, sem er húsnæði skammt frá. Bátarnir okkar hafa verið að fiska fyrir norðan og landa á Skagaströnd, aflinn er m.a. unninn fyrir okkar kúnna hjá Nýfiski í Sandgerði svo við náum að halda okkar viðskiptasamböndum sem er auðvitað mjög mikilvægt. Ég vonast til að geta hafið vinnslu á nýju ári í Grindavík, nú förum við að byggja bæinn upp að nýju,“ sagði Hermann.