Gistinóttum á Suðurnesjum fjölgar um 10%
Gistinætur á hótelum og gistiheimilum á fyrsta þriðjungi þessa árs voru 245.000 en voru ríflega 230.000 á sama tíma í fyrra. Útlendingum fjölgaði um 10% en aðeins dró úr gistingum Íslendinga. Þróunin var mjög mismunandi eftir landshlutum; þannig fjölgaði gistinóttum um nærfellt helming á Norðurlandi vestra þeim fjölgaði um tæpan þriðjung á Suðurlandi, um fimmtung á Vestfjörðum og um ríflega 10% á Suðurnesjum. Á Norðurlandi eystra varð örlítil fækkun og á Vestur- og Austurlandi fækkaði gistinóttum um 17% til 20%.
Á undanförnum árum hefur útlendingum sem gista á hótelum og gistiheimilum fjölgað jafnt og þétt; reyndar með nokkru bakslagi í fyrra en heldur dregur úr gistingu heimamanna.