geoSilica og Orka náttúrunnar semja
- um áframhaldandi samstarf
Fulltrúar Orku náttúrunnar og geoSilica hafa skrifað undir samning sem felur í sér áframhaldandi samstarf við fjölnýtingu jarðhitaauðlindarinnar við Hellisheiðarvirkjun. Þar hefur geoSilica haft aðgang að heitu vatni frá virkjuninni til að vinna úr því kísil sem notaður er í heilsuvörur frá fyrirtækinu. Vörur fyrirtækisins hafa verið í boði í apótekum, heilsuverslunum og á jarðhitasýningu ON í rúmt ár.
Vöruþróun geoSilica Iceland byggjast á rannsóknum frumkvöðlanna Fidu Abu Libdeh og Burkna Pálssonar sem þau unnu í lokaverkefni í orku- og umhverfistæknifræði við Háskóla Íslands. Fyrirtækið stofnuðu þau árið 2012. Samningurinn felur í sér að geoSilica er tryggð aðstaða við virkjunina til starfsemi sinnar og aðgangur að kísilríku vinnsluvatni frá henni.
Náttúruleg framleiðsla fyrir bein og húð
Kísillinn er náttúrulegur jarðhitakísill á formi örsmárra kísilagna sem falla út í jarðhitavatni frá borholum Hellisheiðarvirkjunar. Magn kísilsins er styrkt í jarðhitavatninu í ferli sem eingöngu eykur styrk kísilagnanna en ekki annarra efna. Að lokum er svo skiljuvatninu skipt út fyrir hreint grunnvatn frá svæðinu en magn kísils helst óbreytt. Lokavaran er því 100% náttúrlegur jarðhitakísill í hreinu vatni. Engar efnavörur af neinu tagi eru notaðar við framleiðsluna né heldur hár hiti.
Fjölnýting auðlindanna á Hellisheiði
Í Hellisheiðarvirkjun framleiðir ON hvorttveggja raforku og heitt vatn fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu. Um einn sjötti hluti heita vatnsins í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu kom frá Hellisheiðarvirkjun á árinu 2015 og svaraði raforkuframleiðslan til tvöfaldrar almennrar notkunar á sama svæði.
Hjá ON er sérstök áhersla lögð á að skapa fyrirtækinu tekjur af sem flestu sem til fellur við jarðhitanýtinguna á Hengilssvæðinu. Nú þegar er rekin umfangsmikil ferðaþjónusta í Hellisheiðarvirkjun en um 100 þúsund manns sækja Jarðhitasýninguna þar á hverju ári. Að auki nýtir fjölmargt útivistarfólk Hengilssvæðið með virkjunum ON og nú eru til skoðunar möguleikar á tekjuöflun af sölu jarðhitalofttegunda, einkum koltvísýrings. Einkaaðilar hafa verið að kanna möguleika á rekstri baðstaðar á svæðinu, sem nýtti vatn frá virkjuninni.
Gott samstarf við ON, segir Fida
„Orka náttúrunnar er dæmi um íslenskt fyrirtæki sem styður við nýsköpun og aukna nýtingu á jarðvarma auðlindum á Íslandi,“ segir Fida Abu Libdeh framkvæmdastjóri geoSilica og bætir við að hún sé afar ánægð með stuðninginn frá ON og hlakkar til áframhaldandi samstarfs. „Við höfum verið í rannsóknum og þróun við Hellisheiðarvirkjun í tæp þrjú ár. Fyrirtækið og starfsmenn þess hafa reynst okkur mjög vel. Þau eru fagmenn á sínu sviði og hafa stutt við rannsóknir og þróun hjá geoSilica frá upphafi.