Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Garðmenn glaðir með nýja Kjörbúð
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri og Sigrún Drífa eiginkona hans mættu við opnun Kjörbúðarinnar í Garði. VF-mynd/pket.
Föstudagur 11. nóvember 2016 kl. 15:41

Garðmenn glaðir með nýja Kjörbúð

Garðmenn fögnuðu og fjölmenntu við opnun nýrrar matvöruverslunar Samkaupa í bæjarfélaginu. Nýja verslunin leysir af hólmi Samkaupsverslun í Garðinum, heitir Kjörbúðin og er önnur í röðinni sem opnar í nýrri matvöruverslanakeðju Samkaupa.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa hf. sagði að Kjörbúðin væri ný keðja sem væri hönnuð út frá þörfum og óskum þúsunda viðskiptavina sem hefðu tekið þátt í skoðanakönnun. Gunnar sagði að Kjörbúðin væri hönnuð út frá niðurstöðum úr þessum könnunum. Hugmyndin væri að bjóða í heimabyggð lágt vöruverð og miklu meira vöruúrval en hefur þekkst.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri þakkaði Samkaupsmönnum fyrir að hafa sýnt Garðinum tryggð í áraraðir, óskaði þeim til hamingju og sagði nýju Kjörbúðina vel heppnaða. Í stuttu spjalli við bæjarstjórann og Sigrún Drífa Óttarsdóttir eiginkonu hans, sagði frúin að eiginmaðurinn væri eiginlega sá sem sæi meira um innkaupin. „Enda gamall sjókokkur,“ sagði Magnús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Viðskiptavinir nýttu sér mjög góð opnunartilboð og mátti sjá margar fullar innkaupakörfur, með lambalærum, kjúklingabringum, jarðarberjum og drykkjarföngum, á leið á kassa. Fengu sér svo kaffi og köku í tilefni opnunarinnar, áður en þeir héldu heim á leið.

Fyrstu viðskiptavinir Kjörbúðarinnar voru mættir við opnun. Gunnar Egill Sigurðsson hjá Samkaupum bauð þá velkomna.

Samkaupsmennirnir, Gunnar Egill f.h., Skúli Skúlason, formaður Kaupfélags Suðurnesja og Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa í nýju Kjörbúðinni.

Kjörbúðin Garði