Fyrsta flug easyJet til Manchester frá Keflavíkurflugvelli
EasyJet, sem er eitt stærsta flugfélag Evrópu, hóf í dag beint flug á milli Manchester og Keflavíkur og býður þannig upp á nýja flugtengingu við Norðvestur-England. Fyrsta farþegaþota félagsins á þessari leið lenti í Keflavík í morgun kl.09:48. EasyJet mun fljúga tvisvar sinnum í viku til Manchester, á fimmtudögum og sunnudögum. Verðið er vel samkeppnishæft en hægt er að kaupa miða á heimasíðu easyJet, www.easyjet.com, þar sem lægstu fargjöldin eru undir 30 þúsund krónum báðar leiðir með sköttum og gjöldum. EasyJet hefur þá stefnu að bjóða ávallt lægst verð til þeirra sem bóka ferðir sínar snemma.
Hlutfall Íslendinga í fyrsta fluginu út 70%
Sjötíu prósent farþeganna sem fóru með vélinni til baka til Manchester í morgun voru Íslendingar. Hluti íslensku farþeganna var á leið til Spánar og hafði fundið hagstætt verð með hjálp bókunarvéla á netinu. Skömmu eftir lendingu vélarinnar frá Manchester lenti vélin sem var að koma frá Lundúnum. Það sátu því tvær þotur frá easyJet í fyrsta sinn hlið við hlið við landgangana í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Klippt á borða og boðið upp á köku í tilefni dagsins
Það var Hafnfirðingurinn Ragnar Jóhannesson sem var fyrsti farþeginn til að bóka sig inn í flugið og hann sá því um að klippa á borðann með aðstoð Hlyns Sigurðssonar framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ragnar er um áttrætt og hugðist hann, ásamt eiginkonu sinni, ferðast áfram til Alicante frá Manchester. Einnig var farþegum í fyrsta fluginu boðið upp á köku í boði Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar. Fyrstu kökusneiðarnar komu í hlut japanskrar fjögurra manna fjölskyldu sem dvalið hafði hér á landi í fríi í fjóra daga í skólafríi barnanna. En fjölskyldan býr í Sviss.
Manchester vinsæll áfangastaður
Búist er við því að Íslendingar muni nýta vel þessa nýju flugleið easyJet en Manchester er spennandi áfangastaður fyrir þá sem vilja komast í stuttar borgarferðir, þar sem borgin er þekkt fyrir skemmtileg söfn og líflegt næturlíf, eða fyrir þá sem sækjast eftir lengri fríum og vilja kynnast fallegum sveitum Englands. Margir munu einnig fljúga til að sækja knattspyrnuleiki sem fram fara í borginni og nærliggjandi borgum. Kakan sem boðið var upp á í morgun var í formi fótboltavallar, sem var tilvísun í þennan mikla knattspyrnuáhuga Íslendinga.
EasyJet eykur umsvif á Íslandi
EasyJet er sterkur samstarfsaðili fyrir íslenska ferðaþjónustu og jákvæð innspýting í efnahagslífið hér. Félagið hefur aukið þjónustu sína hér á landi jafnt og þétt á því tæpa ári sem easyJet hefur flogið til landsins. Nýlega var flugtíðni til Lundúna aukin úr þrem í fjórar ferðir í viku allt árið um kring og þann 21. mars næstkomandi mun flugfélagið hefja flug til Edinborgar í Skotlandi. Þessir nýju áfangastaðir easyJet auka við valmöguleika Íslendinga á að ferðast á auðveldan hátt til þessara borga en tengingar sem þessar hafa mikil áhrif á vöxt ferðaiðnaðarins. Fleiri Bretar og Skotar öðlast einnig tækifæri til að ferðast til Íslands sem hefur jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Búist er við því að farþegar sem ferðast hingað með easyJet á árinu 2013 muni skila ríflega 5 milljarða gjaldeyristekjum á þessu ári*.
Hugh Aitken, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi: „Við erum ánægð með að geta boðið neytendum valkost í flugi á milli Manchester og Reykjavíkur en báðar borgirnar eru frábærir áfangastaðir bæði fyrir fólk í viðskiptaferðum og fólk á leiðinni í frí”, segir Hugh. Við höfum verið að auka þjónustu okkar á Íslandi með því að bæta við fleiri áfangastöðum, Manchester í dag og Edinborg í næsta mánuði, ásamt því að auka tíðnina á milli Íslands og London. Við höfum mikla trú á íslenska markaðnum en við reiknum með að bjóða tugþúsundir sæta hingað til lands á þessu ári og lítum til áframhaldandi vaxtar á íslenska markaðnum“.
*Miðast við sætaframboð og meðaltalseyðslu ferðamanna í tölum Íslandsstofu