Fríhöfnin styrkir Tollgæsluna í tilefni af opnun komuverslunar
Fríhöfnin ehf. opnaði í gær með formlegum hætti nýja og glæsilega komuverslun á 1. hæð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í tilefni þeirra tímamóta afhenti stjórnarformaður Fríhafnarinnar Tollgæslunni á Suðurnesjum styrk að upphæð 300.000 krónur til reksturs á fíkniefnahundum embættisins. Í tilkynningu frá Fríhöfninni segir að með því móti vilji fyrirtækið styrkja Tollgæsluna í starfi sínu „og sýna henni þakklætisvott fyrir þann árangur sem hún nær hvað eftir annað í baráttunni við fíkniefnapláguna.“
Nýja komuverslunin er um 1.500 fermetrar að flatarmáli og hefur verið stækkuð um 1.000 fermetra frá því breytingar hófust 1. júní 2005. Áhersla var lögð á að gera nýja verslun bjarta og skemmtilega auk þess að skapa sem best flæði viðskiptavina um hana.
„Markmiðið var að geta boðið farþegum enn betri þjónustu í rúmgóðri og bjartri verslun þar sem þeir gætu notið þess að kaupa tollfrjálsan varning við komuna til landsins. Fyrstu viðbrögð viðskiptavina okkar benda eindregið til að þetta hafi tekist,“ segir Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, í tilkynningunni. „Stóraukið húsrými gefur okkur færi á að kynna og sýna vörurnar betur og á markvissari hátt en áður.
Viðskiptavinir í komuverslun geta keypt raftæki og afþreyingarefni við komuna til landsins líkt og verið hefur en ELKO og Skífan annast sölu á þeim vöruflokkum í versluninni.
Fríhöfnin ehf. rekur nú fjórar verslanir í flugstöðinni: tvær fyrir brottfararfarþega, eina ætlaða skiptifarþegum frá löndum utan Schengen svæðisins og þá fjórðu fyrir komufarþega á 1. hæð.
Mynd 1: Elín Árnadóttir forstjóri FLE, Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, Gestur Hjaltason framkvæmdastjóri ELKO og Halldór Gunnar Pálsson framkvæmdastjóri Skífunnar.
Mynd 2: Starfsmenn Tollgæslunnar á Suðurnesjum ásamt tveimur fíkniefnahundum