FORVARNIR FRÁ VÖGGU TIL GRAFAR
Eysteinn Eyjólfsson er nýr verkefnastjóri verkefnisins Reykjanesbær á réttu róli og tók hann við starfinu um áramót. Að sögn Eysteins er verkefnið alhliða forvarnarverkefni og markmiðin víðfem.„Markmið okkar eru allt frá þeirri almennu hugmynd að stuðla að aukinni vellíðan og heilbrigðu lífi í bæjarfélaginu til þess að kynna og styrkja hið mikla og góða starf sem unnið er í Reykjanesbæ. Hóparnir sem hafa starfað innan verkefnisins eru til marks um það hver viðfangsefnin eru mörg en segja má að þeir fjalli um forvarnir frá vöggu til grafar”.Hvernig leggst starfið í þig?„Mér líst mjög vel á starfið enda hefur verkefnið mikinn meðbyr og fjöldi fólks er reiðubúinn til góðra verka. Ég vil meina að ákveðin hugarfarsbreyting hafi þegar orðið í bænum okkar og held ég að Reykjanesbær á réttu róli hafi haft áhrif í þá veru. Það eru góðir hlutir að gerast í Reykjanesbæ og nú þarf að halda áfram á sömu braut“.Nýjum mönnum fylgja oft einhverjar áherslubreytingar en segir Eysteinn að hann muni byggja á því starfi sem þegar hafi verið unnið af forverum hans Jóhanni Magnússyni og Frey Sverrissyni.Hvernig er fjárstuðningur verkefnisins?„Verkefnið er alfarið fjármagnað með framlögum. Reykjanesbær hefur styrkt verkefnið á annað ár auk þess sem ríkisvaldið hefur lagt til hluta. Leitað hefur verið til fyrirtækja hér í bænum og hef ég trú á því að við fáum góðar viðtökur. Víst er að það er erfitt að finna betri málstað til þess að styrkja.Hvað þarf til að slíkt verkefni gangi upp?„Að mínu viti þarf verkefni eins og Reykjanesbær á réttu róli á fjórum stoðum að halda. Grunnurinn er hóparnir sem fólk vinnur óeigingjarnt starf fyrir bæjarfélagið. Góð samvinna við embættismenn bæjarins, lögreglu og áhugafélög eins og foreldrafélög er mjög mikilvæg. Framlög bæjarfélagsins,ríkis og fyrirtækja til fjármögnunar verkefnisins er nauðsynleg. Síðasta stoðin er vilji hins almenna borgara til þess að breyta samfélagi okkar til góðs. Þessar fjórar stoðir eru til staðar hér í Reykjanesbæ þannig að ekkert hindrar okkur til áframhaldandi góðra verka”.Hver eru helstu verkefni á döfinni?„Það er fjöldinn allur af hugmyndum og verkefnum í farvatninu hjá okkur. Má þar t.d. nefna breytingar í skólamálum í Reykjanesbæ í haust. Reykjanesbær á réttu róli hefur fullan hug á að taka þátt í því verkefni að skapa fjóra nýja skóla í bænum okkar. Í því sambandi má geta þess að stefnt er að halda fund um agamál í grunnskólum Reykjanesbæjar. En það er víst að verkefnin eru mörg og viljinn til verka er einnig mikill”. Viðtal og myndir:Dagný Gísladóttir