Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fólk sækir í hollari vöru
Bjarki Þór Árnason, verslunarstjóri hjá Nettó í Reykjanesbæ.
Sunnudagur 14. desember 2014 kl. 18:24

Fólk sækir í hollari vöru

– segir Bjarki Þór Árnason, verslunarstjóri í Nettó

„Jólaverslunin fer mjög vel af stað og mánuðurinn hefur byrjað vel og bóksalan hjá okkur hefur verið mikil og þetta lítur vel út,“ segir Bjarki Þór Árnason, verslunarstjóri hjá Nettó í Reykjanesbæ, í samtali við Víkurfréttir. Verslunin í Reykjanesbæ hefur vaxið hratt á síðustu árum og er í dag önnur stærsta verslunin í verslunarkeðju Nettó. Hagur Suðurnesjamanna er einnig að vænkast og það segist Bjarki finna bæði í búðinni og samfélaginu. Hann segist finna fyrir mikilli jákvæðni fólks og neyslan sé að breytast.

Bjarki segir að kjötsalan sé einnig að aukast mikið þessa dagana. Nú er nýbúið að setja upp tímabundið kjötborð við mjólkurkælinn þar sem m.a. er afgreitt hangikjöt á beini og aðrar steikur eins og hryggir og allt sagað í stærðir að ósk viðskiptavina. Jólakjötborðið nýtur vinsælda miðað við söluna þar fyrstu dagana stefni í metsölu á kjöti nú fyrir jólin.



Bækur, sælgæti og villibráð
– Hvernig breytist verslunin ykkar fyrir jólin?
„Það fyrsta sem fólk tekur eftir er bókamarkaðurinn okkar sem er að njóta mikilla vinsælda allan desember. Svo má segja að búðin fyllist af sykri fyrir jólin þegar konfektið og karamellurnar koma í hillurnar. Mikið er að gera í bökunarvörum fram í miðjan desember en það hefur verið áberandi eftir hrun hvað fólk er farið að baka meira en áður. Það er mikil aukning í sölu á bökunarvörum“.

Úrvalið í kjötvöru er eins og best gerist hjá Nettó. Reykta kjötið er allt til í Nettó og þá er mikið úrval af villibráð, hvort sem það eru skorskar rjúpur eða kengúra af sléttum Ástralíu. Þá er jólasíldin öll í Nettó og fjölbreytt úrval af paté og svo er laufabrauðið á sínum stað.

Úrvalið í sérvöru hefur aldrei verið meira, segir Bjarki. Nú streyma í hús gámar frá Ameríku með ýmiskonar leikföngum, snjóskóflum og gjafavöru af öllu tagi. Úrvalið í leikföngum er mikið fyrir þessi jól og t.a.m. er að koma mikið af ódýrari leikföngum.

Öll innkaup á sama stað
Í Nettó í Reykjanesbæ er hægt að gera öll innkaup til jólanna. Þar er til öll matvara, úrval af gjafavöru og svo fatnaður á alla fjölskylduna, allt frá undirfatnaði til kuldagalla. Þá er góð garndeild fyrir þau sem eru að prjóna eða hekla. Þá hefur sala á stórum raftækjum eins og ísskápum, frystikistum, þvottavélum og þurrkurum verið mjög góð. Eins hefur sala á sjónvörpum verið góð nú fyrir jólin.

Í vikunni lauk sérstökum tilboðum til þeirra sem eru félagsmenn í KSK en þar mátti m.a. kaupa þessi stóru raftæki á 30% afslætti og fá góðan afslátt á allri vöru Nettó. Bjarki sagði félagsmenn hafa verið duglega að nýta sér þessi tilboð sem ávallt eru í boði í aðdraganda jóla.



Bjartari verslun
Verslun Nettó í Reykjanesbæ hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu misserum. Búðinni hefur verið snúið við, ef svo má segja, og gerð miklu þægilegri fyrir viðskiptavininn. Þá er nýlega lokið við að skipta út allri lýsingu í búðinni þannig að verslunin er öll mikið bjartari en áður. Það var gert í framhaldi af því að skipt var um þak á verslunarhúsinu og þakgluggar fjarlægðir. Þá hefur verið skipt um kassakerfi og eftir jólavertíðina verður haldið áfram að betrumbæta búðina. „Verkefnið er ekki búið,“ segir Bjarki.

Viðskiptavinir vilja hollari vöru
Eins og Bjarki sagði hér fyrr þá eru neysluvenjur að breytast og nefnir hann sem dæmi að lífrænar vörur séu alltaf að verða vinsælli. Það sé nú verkefni starfsfólks í Nettó í Reykjanesbæ að koma þeirri vöru enn betur fyrir í búðinni. Deildin með hollustuvöruna hefur sprengt allt af sér og hún verður stækkuð enn frekar á nýju ári. „Fólk vill hollari vöru og við reynum að mæta því, m.a. nú í jólaösinni með því að bjóða upp á hollara súkkulaði. Þá erum við að fá til landsins konfekt sem er mun hollara en það súkkulaði sem við höfum verið að bjóða og það sem meira er, að það er bragðgott“. Til marks um það hvernig neysluvenjur séu að breytast þá eru niðursuðuvörur á undanhaldi. Baunir í niðursuðudósum seljast núna minna og fólk sækir frekar ferskt eða frosið grænmeti.

Mikil spenna fyrir Jólalukkunni
– Þið eruð stórir þátttakendur í Jólalukku Víkurfrétta og verslana. Hvað gerir hún fyrir ykkur?
„Hún skapar alveg svakalega stemmningu hér í búðinni. Það fer mikið magn miða út hjá okkur og þessi skafmiðaleikur skapar jólastemmningu og spennu í búðinni. Við sjáum að viðskiptavinir eru farnir að skafa áður en þeir eru komnir út úr búðinni. Þá kemur fólk hingað til að sækja vinninga sem við afhendum hér í búðinni. Þá kemur fólk hingað til að setja miða í pott sem svo dregið er úr reglulega. Mér finnst Jólalukkan alveg ómissandi fyrir jólin og þetta er skemmtilegur leikur sem ég vildi ekki vera án,“ segir Bjarki.

Nettó í Reykjanesbæ er stór vinnustaður. Þar starfa allt í allt 45 manns en að jafnaði eru 15 manns á vakt á venjulegum degi. Nú fyrir jólin fjölgar svo fólki í búðinni. Skólafólk kemur inn um leið og prófum lýkur og þá kemur aðstoð frá íþróttafélögum fyrir jólin þegar ungt fólk kemur og aðstoðar viðskiptavini að setja vörur í poka.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024