Flybe lendir á Íslandi
– Nýtt áætlunarflug frá Birmingham til Íslands er hafið
Flybe, stærsta svæðisbundna flugfélag Evrópu, hóf áætlunarflug sitt til Íslands í gær þegar fyrsta þota félagsins lenti í Keflavík.
Flugin munu tengja Birmingham beint við Keflavík og mun Flybe fljúga þrisvar í viku til Íslands frá Birmingham. Flogið verður á sunnudögum, þriðjudögum og föstudögum.
Í tilefni af fyrsta fluginu var tekið á móti flugvélinni samkvæmt alþjóðahefð með vatnsboga. Á meðal farþega var hópur þekktra breskra blaðamanna, ásamt flugleiðastjóra Flybe, Fred Kochak.
Stuart Gill, sendiherra Bretlands á Íslands, tók á móti farþegunum í gærkvöldi: „Breskir ferðamenn heimsækja Ísland í síauknum mæli. Þeir koma til að njóta alls hins stórkostlega sem Ísland hefur upp á að bjóða, allt árið um kring. Áætlunarflug Flybe er enn eitt dæmi um vaxandi tengsl landanna tveggja. Ég óska flugfélaginu til hamingju með að bjóða upp á allra nýjustu flugleiðina til Íslands. Nú er hægt að fljúga til Reykjavíkur [Keflavíkur innsk.blm.] frá átta breskum þéttbýlisstöðum.“
Við sama tækifæri sagði Kochak: „Við hjá Flybe erum stolt af því að vera fyrsta flugfélagið til að bjóða upp á reglulegt flug milli þessara borga og að tengja Reykjavík [Keflavíkur innsk.blm.] og Birmingham saman með áætlunarflugi í fyrsta skipti.”
Birmingham er næst stærsta borg Bretlands og er að auki vel staðsett fyrir farþega sem vilja komast til London eða áleiðis til Evrópu.