Flóðgáttir opnast hjá AwareGO
Ragnar Sigurðsson frumkvöðull hjá AwareGo er með aðstöðu í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú. AwareGO gerir lausnir til að auka öryggisvitund fólks. Skortur á öryggisvitund er mesta ógn við nútíma tölvukerfi og eina leiðin til að lágmarka hættuna er regluleg þjálfun og áminningar.
„Öryggi er í eðli sínu þurrt og óáhugavert viðfangsefni því völdum við að gera kennsluna áhugaverða, þ.e. stuttir og skemmtilegir þættir til að vekja umtal og áhuga á öryggismálum s.s. lykilorðum, öryggi tölvupóstssamskipta og fleira,“ segir Ragnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri AwareGO í samtali við Ásbrúarblaðið.
Ragnar fer á næstu dögum utan til að taka þátt í stærstu sýningu heims á sviði öryggismála þar sem 12.000 manns hafa boðað komu sína. Ragnar datt einnig í lukkupottinn nú fyrir sýninguna því stærsta tímarit heims á sviði öryggislausna hefur verið að fjalla um AwareGO og það sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða. Tímaritið var að fara í prentun á dögunum þegar heilsíðu auglýsing datt út og ákváðu útgefendur að verðlauna Ragnar með því að gefa litla sprotafyrirtækinu á Ásbrú auglýsingaplássið á blaðsíðu 5. Ragnar segir auglýsingaplássið metið á eina milljón króna og þá fer blaðið til 80.000 áskrifenda sem allir eru að leita að því nýjasta á sviði öryggismála í tölvukerfum sínum og umgengni við þau. Þetta er í þriðja skiptið sem AwareGO tekur þátt í þessari sýningu og aukningin hefur verið stanslaus en þeir sem sækja sýninguna eru þeir sem sjá um tölvuöryggismál í fyrirtækjum.
Fyrirtæki Ragnars hefur vaxið hratt núna á síðustu mánuðum. Lausnin sem AwareGO býður eru skemmtilegir þættir á netinu sem eiga að vekja umtal og áhuga á öryggismálum eins og segir hér að framan. Fram til síðustu áramóta hafði Ragnar aðeins selt um þrjúhundruð leyfi en frá síðustu áramótum hafa verið seld 9000 leyfi og á meðal viðskiptavina eru útibú Sumitomo banka í London. Bankinn er sá 18. stærsti í heimi og hefur Ragnar þær upplýsingar frá Lundúna-útibúi bankans að mælt verði með þjónustunni við önnur útibú Sumitomo banka. Einnig er stærsti sparisjóður Ástralíu, CUA, kominn í viðskipti. Það sama má segja um einn stærsta matvælaframleiðanda í Evrópu og er Icelandair nýlega komið í hópinn. Þá er AwareGO í viðræðum við 30 önnur fyrirtæki út um allan heim með á aðra milljón starfsmanna. Ragnar segir að það skipti miklu máli fyrir litla fyrirtækið hans að geta núna sagt hverjir séu á meðal viðskiptavina, því það sé ávallt fyrsta spurning þeirra sem eru að skoða kaup á þjónustunni, hverjir aðrir eru að nota lausnina.
Ragnar segir að það skipti miklu máli að það efni sem AwareGO býður upp á séu skemmtilegir þættir á netinu þar sem boðskapnum sé komið til skila í bland við húmor og það sé mun áhugaverðari fræðsluleið til starfsmanna fyrirtækja en þurrar glærukynningar.
Flest af þeim fyrirtækjum sem Ragnar hefur selt lausnina til eru skyldug til að fræða starfsfólk sitt einu sinni á ári. Framundan er framleiðsla á fleiri myndböndum fyrir netið. Ragnar vill líka trúa því að þegar táin er einu sinni komin inn fyrir hurðina, þá sé auðveldara að koma aftur og eiga frekari viðskipti.
Á góðum degi skreytir Ragnar sig með því til gamans að hann sé að reka næst fjölmennustu menntastofnun landsins. Hann er ekki í samkeppni við háskólana en er engu að síður með 9000 nemendur á sínum snærum sem allir eru að læra um tölvuöryggi.
Fram til þessa hefur stofnkostnaður fyrirtækisins verið mikill og hlaupið á tugum milljóna. Ragnar vonast þó til þess að fljótlega geti hann farið að borga sér laun en eins og staðan sé í dag er þetta nýsköpunarfyrirtæki og allar tekjur sem koma inn fara í að greiða stofn- og markaðskostnað.
Ragnar segir mikilvægt að geta haft aðstöðu í húsi eins og Eldey. Þar leigir hann skifborð og stól fyrir 6000 krónur á mánuði og hefur aðgang að mjög góðu netsambandi. Hann segir það skipta miklu máli fyrir sig að geta farið í vinnu á morgnana og heim úr vinnu síðdegis. Auðvitað gæti hann verið með reksturinn heima við eldhúsborðið, en það skipti máli fyrir fólk í sprotafyrirtækjum að komast út úr húsi og geta átt samskipti við annað fólk, fengið álit og gefið álit. Þannig á þetta að vera í frumkvöðlasetri, þar á að vera fullt af fólki og hugmyndavinna fram og til baka.
Að baki AwareGO standa 24 hluthafar og eru flestir þeirra af Suðurnesjum.