Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Fleiri bandarískir ferðamenn
Föstudagur 3. ágúst 2007 kl. 15:01

Fleiri bandarískir ferðamenn

Helga Ingimundardóttir rekur hvalaskoðunina Moby Dick og hvalaskoðun er mjög vinsæl hjá ferðamönnum sem koma hingað til lands. Að sögn Helgu hefur sumarið gengið nokkuð vel en að fyrirtækið hafi misst töluverð viðskipti þegar herliðið fór frá Keflavíkurflugvelli. Undanfarin ár hefur herinn verið góður viðskiptavinur og því nokkur eftirsjá í þeim. En svo skemmtilega vill til að aukning hefur verið í ferðamönnum frá Bandaríkjunum og það vegur eitthvað upp á móti. Fólk er mjög ánægt með ferðirnar og ásóknin hefur verið svipuð og undanfarin ár.

Það komst í fréttir nýlega að lítið hafi verið um sandsíli síðustu misseri, bæði á Faxaflóa og annarstaðar við landið þar sem vanalega er mikið af þeim. Það hefur haft áhrif á allt lífríkið, minna er af kríu en nokkru sinni áður, segir Helga, og eitthvað minna af hvölum. Þó hafi þau séð hvali eða höfrunga í öllum ferðum í sumar. Nú bólar aftur á sandsílunum og því ætti restin af lífríkinu líka að taka við sér fljótlega.

Meira er um að ferðamenn stoppi lengur hér á Reykjanesskaganum og að sumir komi gagngert til að vera hér en ekki til að ferðast um allt landið að sögn Helgu. Hún hefur meira orðið vör við ferðamenn hér í bænum og að þeir séu duglegir við að kynna sér hvað hér er til boða, til dæmis með því að taka bæklinga sem eru gefnir um borð í bátunum. Auðvitað má lengi gott bæta og meiri kynning á þeim valmöguleikum sem ferðamenn hafa myndi eflaust verða til þess að enn fleiri gæfu sér lengri tíma til að skoða sig um hér í nágrenninu.

 

VF-mynd/ [email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024